Óvéfengjanlegar heildarniðurstöður
Rannsóknarnefnd sú sem Alþingi skipaði til að skoða orsök hruns íslenska fjármálakerfisins skilað niðurstöðum sínum í viðamikilli skýrslu þann 12. apríl 2010. Strax við kynningu nefndarinnar á blaðamannafund komu í ljós skýrar meginniðurstöður um hvernig áhættusækni allra íslensku bankanna jókst á tímum auðfengins lánsfjár á heimsmörkuðum, um vanmat á eigin styrk þegar alþjóðlegir lánsfjármarkaðir lokuðu og hvernig útlán bankanna beindust aðallega til fárra innlendra aðila sem oftast voru í hópi stærstu eigenda bankanna eða tengdra aðila. Á sama tíma voru gerð alvarleg mistök í hagstjórn landsins og engin viðleytni að hálfu stjórnvalda tilað efla og styrkja stoðkerfi fjármálalífsins á Íslandi.
Í opinberri umræðu um störf rannsóknarnefndar Alþingis hafa komið þrennskonar athugsemdir við skýrslu hennar. Í fyrsta lagi er bent á að ekki er fjallað með ítarlegum hætti um þá mestu alþjóðlegu lausafjárkreppu sem skollið hefur á markaði heims í meira en heila öld og hver staða íslensku bankanna var í samanburði við aðra banka í Evrópu og Bandaríkjunum. Í öðru lagi hefur verið á það bent að í skýrslunni er ekki dregið fram eðlilegt orsakasamhengi þannig að sýnt sé fram á að þau atriði sem gagnrýnd eru, eins og t.d. vanræksla embættismanna eða mikil lántaka eigenda bankanna, hafi verið aðalþættirnir í falla bankakerfisins. Í þriðja lagi hafa margir einstaklingar gert athugasemdir við ónákvæmni og ranga meðferð staðreynda í einstaka málum.
Björgólfi Thor Björgólfssyni kom á óvart hvað niðurstöður voru afdráttarlausar og honum varð ljóst að afskipti hans af íslensku bönkunum var í mörgum meginatriðum eins og annarra í forystusveit íslenska fjármálalífsins á árunum 2003-2008. Ábyrgð þessarar forystusveitar var augljós og fannst honum óhjákvæmilegt annað en að biðja Íslendinga afsökunar á sínum þætti í hruni íslenska fjármálakerfi. Gerði hann það með að fá birta grein í Fréttablaðinu þar sem hann biðst afsökunar.
Í ljósi þess hversu miikið er fjallað um Björgólf Thor og fyrirtæki hans í skýrslunni kom á óvart að nefndin óskaði hvorki eftir upplýsingum frá honum, né kallaði hann til viðtals og gaf honum því ekki kost á að svara þeim aðfinnslum eða rangfærslum sem að honum beinast. Þess vegna voru teknar saman yfirlýsing og greinargerð um stöðu lána hans og fyrirtækja honum tengdum hjá Landsbankanum og Straumi en í ályktunum sínum og úrvinnslu fjallar nefndin ítarlega um þau án þess að fara rétt með staðreyndir eða gefa skýringar sem skipt geta sköpum. Í yfirlýsingu sem fylgdi greinargerðinni segir Björgólfur Thor m.a.:
„Sem dæmi má nefna fullyrðingar um að ég hafi tekið lán hjá Landsbankanum vegna Actavis örfáum dögum fyrir fall Landsbankans. Ég hef áður lýst því, að dregið var á þetta lán í áföngum frá apríl fram í september 2008. Fyrir láninu voru fullkomlega eðlilegar viðskiptalegar forsendur, tryggingar voru öruggar og lánið verður gert upp að fullu, líkt og önnur lán mín.“
Í ítarlegri greinargerð segir einnig:
„Skýrsla rannsóknarnefndar tiltekur eingöngu þá fjárhæð sem hefur verið lánuð en tekur ekkert á hvaða tryggingar standa á móti þeim lánum eða hvenær lánin voru tekin. Þegar farið er yfir töflu rannsóknarnefndar um lánin kemur glöggt í ljós að stærstu einstöku lánin eru bein lán til Actavis eða lán tengd því félagi, sem er eitt stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins. Fyrir því voru margvísleg rök að það fyrirtæki beindi viðskiptum sínum að hluta til innlendra fjármálafyrirtækja.
Mörg af lánum Björgólfs voru tryggð með handveði í innlánum og því ekki um neina útlánaáhættu að ræða, þ.e. bankinn tryggði að hann myndi ekki verða fyrir tjóni þótt lántakandi gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar með því að hafa fullnægjandi eignir á móti sem tryggingu. Félög tengd Björgólfi voru með rúmlega 50 milljarða króna (300 milljónir evra) reiðufé í innlánum hjá Landsbankanum við fall hans. Voru það fjármunir sem komu til vegna söluhagnaðar erlendra eigna og vörðuðu að engu leyti íslenskt efnahagslíf. Þá hafa eignir verið seldar og lán, sem tiltekin eru í töflunni, verið endurgreidd, sbr. Novator Finland Oy.“
Í skýrslunni eru birtar ýmsar fullyrðingar er varðar Björgólf Thor og er hann að vinna að samantekt með svörum, skýringum og athugasemdum við efni skýrslunnar og verður hún kynnt hér á þessum vef þegar henni verður lokið.