Óvæntar aðstæður juku kröfur og þurrkuðu allt lausafé í erlendum myntum
Fjármálaeftirlitið fól nýskipaðri skilanefnd að taka yfir allar eignir og starfsemi Landsbankans að morgni dags 7. október 2008. Var það gert í krafti neyðarlaga sem Alþingi Íslendinga hafði samþykkt rétt fyrir miðnætti kvöldið áður. Ástæður voru þær að óvæntar aðstæður á heimsmörkuðum, fall Glitnis og viðbrögð við þeim juku skyndilega kröfur á Landsbankann um greiðslur lána og skuldbindinga en bankinn var ekki í aðstöðu til að mæta þeim með litlum fyrirvara. Bankinn hafði ekki aðgang að lausafé í erlendum myntum og Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin tóku ákvörðun um að veita bankanum ekki lán til þrautavara.
Ýmsir hafa fjallað um orsakir fallsins. Fyrsta heildstæða samantektin um hrun fjármálakerfisins var unnin fyrir FME af Kaarlo Jännäri. Hún fjallar ekki sérstaklega um fall Landsbankans en fyrrum bankastjórar Landsbankans, Sigurjón Árnason og Halldór J. Kristjánsson, hafa unnið skýrslu, greinargerð og glærukynningu um orsakir hruns íslenska bankakerfisins og fall Landsbankans. Þá hafði fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans, Björgólfur Guðmundsson, frumkvæði að því að unnar yrðu tvær skýrslur, – önnur um aðdraganda falls Landsbankans og hin um starfshætti bankaráðs bankans. Í þessum gögnum má finna fjölmargar staðreyndir um aðdraganda og skýringar á hinum áhrifamiklu atburðum í íslensku fjármálalífi haustið 2008.