Lögmæt lán gerð upp að fullu

 

Ólafur Kristinsson lögmaður ritar grein í Fréttablaðið 18. nóvember og skorar þar á mig, Björgólf Thor Björgólfsson, að stíga fram og m.a.  svara spurningum um lögmæti lánveitinga Landsbankans til mín og um eignarhald samstarfsmanna minna í félagi, sem átti hlut í Landsbankanum. Þá skorar Ólafur á mig að hafa „frumkvæði að því að bæta skaða hluthafa bankans með því að leggja fram eign sína í Actavis. Þannig væri hugsanlega hægt að ná sátt í málinu og forðast aðkomu dómstóla.“  Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Novators, svarar hér skrifum Ólafs og bendir á að enginn fótur sé fyrir ásökunum hans. Þá byggi hugmynd hans um að ég leggi fram eignarhlut minn í Actavis á tilhæfulausum vangaveltum fjölmiðla. Skuldauppgjör mitt felur í  sér að lánardrottnar mínir, þar á meðal  Landsbankinn,  munu njóta góðs af góðum árangri  í rekstri Actavis og hlut mínum þar.

Svar Ragnhildar Sverrisdóttur, talsmanns Novators við skrifum Ólafs Kristinssonar er svohljóðandi:

„Ólafur Kristinsson lögmaður ritar grein í Fréttablaðið 18. nóvember og skorar þar á Björgólf Thor Björgólfsson að stíga fram og m.a.  svara spurningum um lögmæti lánveitinga Landsbankans til hans og um eignarhald samstarfsmanna hans á félagi sem átti hlut í Landsbankanum. Þá skorar Ólafur á Björgólf Thor „að hann hafi frumkvæði að því að bæta skaða hluthafa bankans með því að leggja fram eign sína í Actavis. Þannig væri hugsanlega hægt að ná sátt í málinu og forðast aðkomu dómstóla.“ 

Ásakanir  Ólafs eru tilhæfulausar  með öllu. Hann ritaði fyrir nokkru grein í Viðskiptablaðið, þar sem hann boðaði hugsanlega hópmálssókn gegn Björgólfi Thor, á þeirri forsendu að hann hefði bakað sér skaðabótaskyldu með meintum blekkingum gagnvart hluthöfum Landsbankans. Af því tilefni var því lýst yfir af hálfu Björgólfs Thors að dómstólar væru rétti vettvangurinn til að útkljá ágreiningsefni. Rétt er að ítreka þá afstöðu, þrátt fyrir að hann telji að málatilbúnaðurinn sé með öllu tilhæfulaus.

Að því sögðu, þá er nauðsynlegt að leiðrétta í stuttu máli hluta þeirra fjölmörgu missagna, sem er að finna í grein Ólafs Kristinssonar. Hann byggir ályktanir sínar um meintar blekkingar á þeirri staðreynd, að samstarfsmenn Björgólfs Thors áttu lítinn hlut í  félagi, sem átti hlut í Landsbankanum. Slíkt eignarhald var og er fullkomlega eðlilegt og allar upplýsingar um það lágu fyrir á hverjum tíma hjá Landsbankanum og Fjármálaeftirlitinu. Að sama skapi lágu fyrir tæmandi upplýsingar um skuldbindingar Björgólfs Thors gagnvart Landsbankanum.  Umræddur eignarhlutur hefur ekkert með þær skuldbindgar að gera og greiddu á engin hátt fyrir lánafyrigreiðslu til hans.

Þá er rétt að vekja sérstaka athygli á að Ólafur Kristinsson lögmaður hefur það  eftir fjölmiðlum að gangi áætlanir Actavis eftir „ geti um 140 þúsund milljónir króna runnið í vasa Björg­ólfs. Eftir því sem best má skilja rennur ekkert af þeim fjármunum til greiðslu skulda eða persónulegra ábyrgða hans.“ Þarna sést ljóslega, hversu varasamt er að reka mál sín í fjölmiðlum – og að byggja þau á upplýsingum fjölmiðla. Þessar tölur eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Í skuldauppgjöri Björgólfs Thors felst að sjálfsögðu, að kröfuhafar hans munu njóta góðs af öflugum rekstri Actavis og hlut Björgólfs í félaginu. Á því byggist allt skuldauppgjör eðli málsins samkvæmt, þ.e. að greiða skuldir sínar.

Í skuldauppgjörinu felst líka, að Björgólfur Thor gerir upp allar skuldir sínar við Landsbanka Íslands. Fullt skuldauppgjör felur því í sér að tjón hluthafa Landsbankans af viðskiptum við Björgólf Thor er ekkert.  Þetta er þveröfugt við það tjón sem bankinn hefur orðið eða verður fyrir vegna lána til annarra þjóðþekktra aðila sem fjallað hefur verið um opinberlega og hafa ýmist ekki vilja eða getu til að gera upp sínar skuldir.

Björgólfur Thor bar alla tíð hagsmuni allra hluthafa Landsbankans fyrir brjósti. Hann sá ekki fyrir hversu grátt hin alþjóðlega fjármálakreppa léki íslenska fjármálakerfið og gat ekki komið í veg fyrir það frekar en aðrir. Það er rétt, að lán Landsbankans til hans og fyrirtækja tengdum honum voru mikil, en að sama skapi voru inneignir miklar og tryggingar öruggar, sem sést best af skuldauppgjörinu. Það er ekki rétt að lánveitingar Landsbankans til hans og félaga tengdum honum hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur. Það hefur margoft verið leiðrétt.

Það skýtur skökku við þegar menn boða að þeir ætli að fá dómstóla til að kveða upp úr um mál, en virðast ætla að flytja málið allt í fjölmiðlum. Slíkur málarekstur ber fremur keim af ófrægingarherferð en málefnalegri umræðu, enda byggður á gömlum ósannindum eða í besta falli misskilningi. Þetta mál verður hins vegar ekki rekið í fjölmiðlum af hálfu Björgólfs Thors.