Ljós í myrkrinu

Íslensk stjórnvöld mála framtíðina dökkum litum; miklu dekkri en ástæða er til, skrifar John Dizard, dálkahöfundur hjá Financial Times.  Á meðan ríkisstjórnir annarra landa hafi gert sig sekar um of mikla bjartsýni  og reynt að fela þá veikleika sem samfélög þeirra glíma við hafi íslenskum stjórnvöldum tekist að dylja efnahagslegan og samfélagslegan styrk þjóðarinnar.  Yfirvöld hafi slegið lagalegar varnir úr eigin höndum og sýnt óvinveittum lánardrottnum öll spil á hendi.  Pistill John Dizards er hressilegt innlegg í neikvæða og staðnaða umræðu.

 

Pistill John Dizard um Ísland var birtur í hinu þekkta viðskiptariti Financial Times 15. október sl., undir fyrirsögninni Iceland is hotter than you might think, eða Ísland er meira spennandi en ætla mætti. Í pistlinum segir hann að hugsanlega fari að skína í gegnum svartsýnina á Íslandi á næstunni, þótt ekki megi greina það af Íslendingum sjálfum eða íslenskum fjölmiðlum. „Ég tek ekki undir þetta samhljóða álit um dökkar horfur á Íslandi,“ skrifar John Dizard, þótt hann taki fram að vissulega hafi fjármálakreppa riðið yfir landið. Öll lönd, þar sem 85% af bankakerfinu hafi orðið gjaldþrota á nokkrum dögum teljist eiga við vanda að stríða. „Eftir á að hyggja virðast sumir þeirra, sem voru til taks til að takast á við vandann, hafa verið valdir úr hópi þeirra minnst ráðvöndu og hæfustu á eyjunni,“ skrifar hann.

John Dizard segir þó ákveðna kosti fylgja vanhæfni þeirra sem réðu, t.d. hafi þá skort trúverðugleika til að breiða yfir vandann með nýjum langtímalánum, eins og stjórnvöld annars staðar hafi gert. Þá segir hann að þjóðin hafi komið að stefnumótun með beinum hætti og virðist hafa meiri skynsemi til að bera en margir kjörnir fulltrúar hennar.

Pistlahöfundurinn telur upp nokkur atriði, þar sem Ísland standi vel að vígi: Hér búi ung og vel menntuð þjóð, lífeyrissjóðir séu sterkir, sjávarútvegurinn skili sífellt verðmætari útflutningi, að ógleymdum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Vissulega sé við vanda að stríða, t.d. hafi landsframleiðsla dregist saman, atvinnuleysi sé yfir 7% og fjármögnun húsnæðis sé klúður. Hann kveðst ósammála stjórnvöldum og AGS um nauðsyn gjaldeyrishafta.

Þótt John Dizard sé jákvæður sér hann blikur á lofti: Icesave. Hann lýsir forsögu málsins og greinir lesendum frá að ógæfusamir samningamenn Íslands hafi ritað undir samning við Breta og Hollendinga í júní 2009, sem þjóðin hafi hafnað. „Þjóðin virðist hafa lesið smáa letrið í samningnum betur en kjörnir fulltrúar gerðu,“ ritar hann og fullyrðir að íslenska ríkið beri ekki ábyrgð á Icesave að lögum.  Þá hafi evrópskar ríkisstjórnir, þar á meðal sú breska og hollenska, ekki haft nokkurn áhuga á að fara með mál fyrir dómstóla, sem snerist um ábyrgð skattborgara á gjaldþroti banka. Nú virðist ljóst að a.m.k. 90% af kostnaði breskra og hollenskra yfirvalda innheimtist úr þrotabúi Landsbankans og Íslendingar muni samþykkja að bæta löndunum það sem upp á vantar, á miklu léttari kjörum en upphaflega var um samið. Þetta muni  gera mögulegt að losa um gjaldeyrishöft og eigendur jöklabréfa (sem hann kallar „sannarlega vitlausa hugmynd“)  geti þar með leyst þau út.

Þá sitji eftir hinir miklu lífeyrissjóðir og fé fjárfesta, sem eltist við of fáa íslenska fjárfestingarkosti.