Lifði í fimm mánuði eftir hrun bankakerfisins

Straumur fjárfestingabanki  hf. starfaði í rétt rúma fimm mánuði eftir fall íslenska bankakerfisins í byrjun október 2008. Undir forystu forstjórans Williams Fall, sem hafði verið ráðinn til bankans árið 2007 m.a. til að lækna bankann af „íslensku veikinni“ eins og Björgólfur Thor Björgólfssonar, formaður stjórnar, orðaði það síðar, hafði bankinn gert ýmsar ráðstafanir sem styrktu bankann. Óvissa og óhagræði vegna íslensku krónunnar gerði bankanum hins vegar erfitt fyrir með að standa við erlendar skuldbindingar.  Á þessum tíma gengdi bankinn mikilvægu hlutverki við að halda almennum tenglsum við hið alþjóða fjármálakerfi en nær allir aðrir þættir íslenska fjármálakerfisins voru komnir í hendur hins opinberar.

Í janúar 2009 voru háværar raddir uppi um að Straumur ætti í óeðlilegum viðskiptum með gjaldeyri en samhliða neyðarlögum hafði Alþingi samþykkt strangar reglur um viðskipti með erlendan gjaldeyri. Þessu hafnaði bankinn algjörlega enda átti eftir að koma í ljós síðar að Straumur var sá vettvangur löglegra gjaldeyrisviðskipta sem hvarf við fall bankans í mars 2009. Fréttatilkynning Straums frá 21. Janúar 2009 var svohljóðandi:

„Nokkur umræða hefur undanfarna daga farið fram um gjaldeyrisviðskipti Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. Hefur verið látið að því liggja að bankinn, þar með talin útibú hans erlendis, ástundi slík viðskipti, ýmist beint eða í gegnum útibúin erlendis, í andstöðu við reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál og vinni gegn því að skilaskyldur gjaldeyrir berist til landsins. Bankinn hafi með þessu komið í veg fyrir eðlilega styrkingu krónunnar. Þetta er alrangt og þykir rétt að koma eftirfarandi á framfæri:

Straumur hefur mjög lagt sig fram við að fylgja gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands sem tóku fyrst gildi í nóvember 2008. Bankinn hefur meðal annars haft náið samráð við Seðlabankann um túlkun reglnanna og framkvæmd þeirra. Við bætist síðan að gjaldeyrisviðskipti Straums lúta nákvæmu eftirliti Seðlabankans sem fær reglulega skýrslur um öll þessi viðskipti. Engar upplýsingar eru þar undanskildar.

Frá því að reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál tóku gildi hefur Straumur keypt erlendan gjaldeyri fyrir fjárhæð sem samsvarar um það bil 4,5 milljörðum króna. Á sama tímabili hefur bankinn á grundvelli reglna Seðlabankans selt gjaldeyri fyrir fjárhæð sem samsvarar um það bil 2,6 milljörðum króna. Af þessu má ráða að gjaldeyrisvelta Straums er mjög óveruleg þegar hún er borin saman við heildar vöruútflutning þjóðarbúsins, en sem dæmi má nefna að samkvæmt opinberum tölum námu þær um það bil 97,2 milljörðum króna í nóvember og desember síðasta árs. Ásakanir um að Straumur standi því í vegi að krónan styrkist fá því ekki staðist.

Straumur hefur í dag sent Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu erindi og farið þess á leit að gjaldeyrisviðskipti bankans verði tekin til sérstakrar skoðunar í ljósi þeirrar umræðu sem skapast hefur og áður er nefnd. Er það von Straums að með því fáist staðreynt að framkvæmd bankans í þessum efnum sé fyllilega í samræmi við lög og reglur.“

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur vann ítarlega samantekt um fall Straums og yfirtöku hins opinbera á bankanum. Þar kemur fram að ákvarðanir stjórnvalda hafi m.a. mótast af því að þeirri pólitísku áhætta sem var talin felast í því að grípa til aðgerða sem túlka mætti sem einhverskonar stuðningur við Björgólf Thor Björgólfsson stjórnarformann bankans og því hafi eðlilegum stjórnsýslureglum verið vikið til hliðar og þá um leið hagsmunum um 20 þúsund hluthafa bankans.