Íslensk þjóðfræði, siðferði og fjölmiðlar
Ragnhildur Sverrisdóttir, sem er talskona Novators, setti saman stutta hugleiðingu í framhaldi af grein Svarthöfða í DV í morgun þar sem höfundur ráðleggur mér að lesa íslenska þjóðfræði sem „gæti verið ágætis byrjun á nýrri braut frá ósóma og neyslusukki …“. Umhyggja í minn garð er fágæti í íslenskum fjölmiðlum um þessar mundir og því þakka ég hinum nafnlausa höfundi Svarthöfða að sýna mér hana. Ragnhildur telur hins vegar að Svarthöfði og félagar á DV gætu haft gagn af því að lesa sitthvað um siðferði og fjölmiðla.
Hér er hugleiðing Ragnhildar:
„Svarthöfði DV veltir fyrir sér hvort ekki sé rétt að Björgólfur Thor lesi um íslenska þjóðfræði og telur að „það gæti verið ágætis byrjun á nýrri og beinni braut frá ósóma og neyslusukki góðærisins.“
Auðsýnd umhyggja Svarthöfða og hans fólks fyrir velferð Björgólfs Thors er þakkarverð. Fyrir hans hönd langar mig því að vísa á gott lesefni fyrir þá sem starfa við fjölmiðla. Þar má til dæmis benda á bókina „Groping for Ethics in Journalism“ (þýð.: Fálmað eftir siðferði í blaðamennsku). Höfundurinn vísar til skoðanakannana, sem sýna að almenningur hefur glatað virðingu fyrir blaðamönnum og misst trú á fjölmiðlum. Þá er einnig áhugavert að lesa bókina „Good News, Bad News“ (þýð.: Góðar fréttir, slæmar fréttir) þar sem fjallað er um siðferði blaðamanna og almannahag. Af bókinni má ráða að stundum kasta blaðamenn siðferðinu fyrir róða, þar sem meiru skiptir að selja blöð en hafa það sem sannara reynist.
Bækurnar hafa því miður ekki komið út á íslensku. Ef Svarthöfði og hans fólk vill hnitmiðaða lesningu um sömu mál á íslensku er rétt að benda á siðareglur Blaðamannafélagsins Íslands.
Ragnhildur Sverrisdóttir“