Fyrstir til að fjárfesta í dreifikerfi fyrir þriðju kynslóð farsíma
Nova hóf fjarskiptaþjónustu hinn 1. desember 2007. Þá hafði undirbúningur að rekstri félagsins staðið yfir í um eitt og hálft ár. Félagið einsetti sér að bjóða góða fjarskiptaþjónustu fyrir farsíma og var það fyrst íslenskra fjarskiptafélaga til að fjárfesta í dreifikerfi fyrir þriðju kynslóð farsíma.
Nova er að stærstum hluta í eigu Novator ehf. og Novator Finland Oy en jafnframt eiga stjórnendur félagsins hlut í félaginu. Fjárfesting í uppbyggingu félagsins nemur 3,9 milljörðum króna og er félagið skuldlaust við lánastofnanir.
Póst- og fjarskiptastofnun bauð út 3G tíðniheimildir, þ.e. tíðniheimildir fyrir þriðju kynslóð farsíma, í árslok 2006 og gerði m.a. kröfur til bjóðenda um útbreiðsluhraða þjónustunnar og eiginfjárstyrk bjóðenda. Áður hafði Nova upplýst um áform sín um uppbyggingu þriðju kynslóðar dreifikerfis fyrir farsíma en þá voru viðbrögð keppinautanna hjá Símanum og Og Vodafone þau að slíkt væri ekki tímabært sökum kostnaðar.
Þann 12. mars 2007 voru tilboðin opnuð og hlaut Nova flest stig bjóðenda. Í kjölfarið var Nova, ásamt Símanum og Og fjarskiptum, úthlutað tíðniheimildum fyrir þriðju kynslóð farsíma.
Nova hefur jafnt og þétt aukið markaðshlutdeild sína og tveimur árum eftir að félagið hóf starfsemi, í desember 2009, voru viðskiptavinir orðnir yfir 60,000 og starfsmenn rúmlega 90. Nova fékk hæstu einkunn fjarskiptafyrirtækja skv. niðurstöðum íslensku ánægjuvogarinnar 2009.
3G dreifikerfi Nova stækkar stöðugt en á þeim stöðum sem dreifikerfi Nova nær ekki til sjá dreifkerfi annarra fjarskiptafyrirtækja til þess að viðskiptavinir Nova eru í stöðugu sambandi. Dreifikerfi Nova er framleitt af kínverska tæknirisanum Huawei.