„Ein merkilegasta frétt síðari ára á Íslandi“

DV rifjar upp í dag, í ómerktri frétt einhvers starfsmanns ritstjórnar, það sem blaðið kallar „eina merkilegustu frétt síðari ára á Íslandi“ og var birt í blaðinu sjálfu fyrir fimm árum. Hver ætli geti talist ein merkilegasta frétt síðari ára á Íslandi? Það hlýtur að vera frétt sem á brýnt erindi til almennings. DV hefur margoft stært sig af samfélagslegu hlutverki sínu, hinu mikilvæga hlutverki á íslenskum fjölmiðlamarkaði, þetta er blað fólksins, sem heldur trúnað við lesendur. Einn eigenda blaðsins, en eigendur þess skilgreina sig sem hóp áhugamanna um frjálsa og óháða fjölmiðlun, treystir blaðamönnum DV til að „leyna engu og upplýsa um það sem skiptir máli.“

 

Það er auðvitað ekki allra að átta sig á fréttamati þessa virta fjölmiðils. En blaðið upplýsir í þessari ómerktu frétt þar sem enginn heimildarmaður er nefndur,  að „ein merkilegasta frétt síðari ára á Íslandi“ hafi verið sagan sem birtist á síðum blaðsins fyrir fimm árum um að Björgólfur Thor hafi ætlað að kaupa sér ís og súkkulaði, en greiðslukortinu hans verið hafnað. En DV bætir við, fimm árum síðar: „Á þessum tíma var framhaldsfréttin af málinu hins vegar aldrei sögð. Hún var sú að þessi frétt ærði Björgólf Thor svo mjög að hann hringdi tæplega fimmtíu sinnum í tiltekinn mann hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365, sem átti og gaf út DV á þeim tíma, til að kvarta undan henni.“

Þótt DV hafi það markmið að leyna engu og upplýsa um það sem skiptir máli, þá fatast blaðinu flugið í þessari fimm ára gömlu og stórmerkilegu framhaldsfrétt. Það er alrangt að slúður í því blaði hafi slík áhrif að nokkur maður nenni að eyða tugum símtala af því tilefni. Hver trúir því sem blaðið tvítekur að ég hafi hringt tæplega fimmtíu sinnum vegna þessa þó svo ég viðurkenni fúslega að á þessum tíma pirraði það mig hversu náið væri fylgst með mínu daglega lífi í þá fáu daga sem ég dvaldi á Íslandi. Það trúir enginn því að nokkur maður hringi fimmtíu sinnum útaf orðnum hlut. Maður spyr sig hvort blaðið sé orðið það blint á ósannindin sem það birtir að það gerir ekki greinarmun á lygi og fáránlegri lygi í fréttum sínum á útsíðu.

 DV virðist hins vegar ósátt við að „Björgólfur hefur nánast aldrei haft fyrir því að hringja og kvarta undan fréttaflutningi fjölmiðla þegar fjallað er um alvarlegri mál sem tengjast honum.“

 Aftur skýtur blaðið yfir markið. Ég legg mikla áherslu á að fjallað sé um mig og viðskipti mín á heiðarlegan hátt og reyni að tryggja að svar berist við fyrirspurnum fjölmiðla, í þeirri von að sjónarmiðum mínum verði haldið á lofti, til jafns við önnur.  Hvernig til tekst fer hins vegar eftir fréttamati viðkomandi fjölmiðla. Það er auðvitað ekki á hverjum degi sem boðið er upp á eina merkilegustu frétt síðari ára að mati þeirra sem upplýsa um það sem máli skiptir.