Eignarhald félaga lá ljóst fyrir – Landsbankinn og FME deildu um túlkun reglna

Viðskiptablaðið greinir frá því í morgun að slitastjórn
Landsbankans rannsaki nú hvort áhættuskuldbindingar bankans hafi farið yfir
leyfileg mörk og eru viðskipti mín við bankann á árunum fram til 2007 nefnd
sérstaklega. Aðrir fjölmiðlar hafa síðan tekið málið upp eftir Viðskiptablaðinu.
Væntanlega tengist þessi fréttaflutningur eitthvað framgöngu lögmanns eins,
Ólafs Kristinssonar, sem er að safna saman fyrrum hluthöfum Landsbankans í
málsókn gegn Landsbankanum vegna rangra upplýsingagjafa. Kjarni þessa máls er að
FME og Landsbankinn voru að fullu upplýst um eignarhluta minn í bankanum  og í
félögum sem áttu í viðskiptum við hann en fram að yfirtöku fyrirtækja minna á
Actavis var ágreiningur um hvort ég hefði yfirráð yfir því félagi en þar fór ég
með undir 40% hlutafjár. Hafa skal í huga að þau lán sem hér um ræðir voru greidd
upp í Landsbankanum árið 2007.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vekur athygli á samskiptum Landsbankans og FME varðandi áhættuskuldbindingar sem tengjast félögum mínum á árinum 2006 og 2007. Lögmenn Landsbankans töldu ekki rétt að telja saman skuldbindingar mínar annars vegar og hins vegar skuldbindingar Actavis en fram að sumri 2007 átti ég undir40% í félaginu og voru þá 2 af 5 stjórnarmönnum fulltrúar mínir. Félagið laut því ekki mínum yfirráðum.  Ekki var komin endanleg niðurstaða í ágreiningsmáli Landsbankans og FME þegar félög á mínum vegum yfirtóku Actavis og félagið var tekið af markaði. Eftir það var aldrei neinn ágreiningur um að skuldbindingar félagsins voru taldar með í heildaskuldbindingum mínum og minna félaga. Þá er mikilvægt að halda til haga að lánin í Landsbankanum sem ágreiningurinn var um voru öll greidd við yfirtökuna á Actavis sumarið 2007.

Væntanlega tengist þessi  fréttaflutningur eitthvað framgöngu lögmanns eins, Ólafs Kristinssonar, sem er að safna saman fyrrum hluthöfum Landsbankans í málsókn gegn Landsbankanum vegna rangra upplýsingagjafa í tengslum við eignarhlut samstarfsmanna minna í Samson eignarhaldsfélaginu sem fór með ríflega 40% eignarhlut í Landsbankanum. Eins og fram hefur komið þá var bæði FME og regluverði Landsbankans kunnugt um það eignarhald. Hins vegar er það svo að ef hluthafar telja að á sér hafi verið brotið þá eiga þeir að leita til dómstóla sem munu leiða hið rétta fram.