Dylgjur um milljarð úr landi

DV fjallaði í síðustu viku um greiðslur frá fjárfestingarfélaginu Novator til móðurfélagsins, BeeTeeBee, á síðasta ári. Samtals greiddi Novator móðurfélaginu um einn milljarð króna, sem er um áttundi hluti skuldar félagsins við móðurfélagið. DV setti fréttina fram með upphrópunum um að milljarður hefði farið til Tortóla, þar sem móðurfélagið er skráð þar. Eins og kom fram í athugasemdum talsmanns míns, Ragnhildar Sverrisdóttur, við frétt blaðsins er skuld Novators við BeeTeeBee til komin vegna þess að Novator hefur fjármagnað rekstur sinn með lánum frá móðurfélaginu, en ekki með lánum í bönkum. Þeir 8 milljarðar, sem þannig hafa runnið frá móðurfélaginu til Novators, hafa farið í uppbyggingu ýmissa fyrirtækja á Íslandi, þ.e. tölvuleikafyrirtækisins CCP, símafyrirtækisins Nova og til Verne, sem er að reisa gagnaver á Suðurnesjum.

 

DV sá ekki ástæðu til að upplýsa lesendur sína um tilurð skuldarinnar og birti ósannindi um að ekki væri ljóst hvernig skuldin væri til komin!

Á síðasta ári lækkaði skuld Novators við móðurfélagið um nær milljarð, en að sjálfsögðu var því ekki þannig farið að fé hefði verið flutt til Tortóla, eins og DV gaf í skyn. Er ekki öllum ljóst að hér á landi eru í gildi lög um gjaldeyrishöft sem banna slíkt?

Þrjár meginskýringar eru á þessari lækkun skuldar Novators við móðurfélagið. Í fyrsta lagi hefur Novator selt ýmsa þjónustu til móðurfélagsins, t.d. sinnt eigum þess hér á landi o.s.frv. Endurgreiðsla þess kostnaðar kemur að sjálfsögðu til lækkunar skulda Novators. Þá seldi Novator ýmsar eignir til móðurfélagsins og kaupverðið kemur að sjálfsögðu til lækkunar skulda Novators. Og loks; Novator greiddi ýmsan kostnað hér á landi fyrir hönd móðurfélagsins, t.d. bæði lögfræðikostnað og sérfræðikostnað. Endurgreiðsla þess kostnaðar kom að sjálfsögðu til lækkunar skulda Novators.

Þá er áhugavert, að blaðamenn DV virðast furða sig á að Novator greiði niður skuldir sínar þegar tap er á rekstrinum. Þar virðast þeir líta á greiðslu skulda með sama hætti og arðgreiðslur, þ.e. að aðeins skuli greitt þegar hagnaður er af rekstri. Novator greiddi að sjálfsögðu engan arð, en fyrirtækið greiddi hluta skuldar. Þá er einnig rétt að taka fram, að engir aðrir en móðurfélagið eiga kröfu á Novator og því var ekki verið að mismuna neinum kröfuhöfum.

Að þessu sögðu ætti að vera alveg ljóst, að ekkert fé fór úr landi þegar Novator greiddi inn á skuld sína við móðurfyrirtækið BeeTeeBee. Sú staðreynd, að móðurfyrirtækið er skráð á Bresku jómfrúreyjunum, gefur DV hins vegar nægt tilefni til að dylgja um fjármagnsflutninga úr landi. Vissulega birti blaðið DV athugasemdir talsmanns míns, en á vefnum dv.is er ekki vikið einu orði að þeim skýringum. Þar vill DV hafa það sem betur hljómar og draga ekki úr vægi þess með sannleikanum.