DV smíðar hænsnabú úr einni fjöður

DV greindi frá því á forsíðu í gær að Heiðar Már Guðjónsson, fyrrum starfsmaður Novator í London, hafi veturinn 2006-2007 plottað „árás á krónuna“. Til grundvallar fréttinni var annars vegar tölvupóstur frá Heiðari til Róberts Wessman, þáverandi forstjóra Actavis, á þá leið að hann hafi hitt tvo nafngreinda vogunarsjóðamenn og að það freistaði þeirra að ráðast á krónuna og hins tölvupóstur þremur mánuðum síðar þar sem Heiðar segir að hátt gengi íslensku krónunnar sé að valda honum erfiðleikum. Þetta dugar DV til að halda því fram að Heiðar Már hafi tekið stöðu gegn íslensku krónunni. Það virðist duga DV að finna eina fjöður og úr verður heilt hænsnabú áður en blaðið áttar sig á að fjöðurin er af gæs. Heiðar Már hefur vísað þessari frétt út í hafsauga og hyggst leita réttar síns fyrir dómstólum, dragi blaðið frétt sína ekki til baka.

Heiðar Már Guðjónsson heldur því fram að hann hafi aldrei tekið stöðu gegn íslensku krónunni og er það í fullu samræmi við svör Novators sem birt eru í blaðinu en DV lagði nokkrar spurningar fyrir talsmann félagsins við vinnslu þessarar fréttar. Heiðar Már minnir á að hann hafi allt frá árinu 2005 varað við of sterkri krónu og hann taldi það skyldu sína að fylgjast vel með því sem áhrifaaðilar á gjaldeyrismörkuðum væru að hugsa og halda fram.

Yfirlýsing Heiðars Más Guðjónssonar er svohljóðandi:

„Í tilefni af forsíðufrétt DV í dag vill undirritaður taka eftirfarandi fram:

Undirritaður, eða Novator, tóku aldrei skortstöðu í íslensku krónunni, né höfðu hag af falli hennar. Undirritaður hefur aldrei stjórnað eða skipulagt árás á íslensku krónuna eins og fullyrt er á forsíðu DV í dag.

Eftir fall íslensku bankanna er íslenska bankakerfið orðið eitt hið best rannsakaða í heiminum þar sem t.d. Rannsóknarnefnd Alþingis og sérfræðingar höfðu fullan aðgang að öllum viðskiptum með krónur. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er sérstaklega fjallað um krónuna og viðskipti með hana. Þar kemur ekkert fram sem styður alrangar fullyrðingar DV um undirritaðan, sem birtust í blaðinu í dag.

Undirritaður varaði ítrekað við óumflýjanlegri lækkun krónunnar, frá hausti 2005, og reyndi að takmarka tjón sitt og Novator af slíku. Landsbankinn var langstærsti kaupandi af krónum á árunum sem til umfjöllunar voru, og keypti fyrir um 2200 milljarða króna, eða 150% af VLF. Novator átti einnig aðrar mjög stórar eignir á Íslandi sem fjármagnaðar voru erlendis. Undirritaður og Novator töpuðu því á falli krónunnar, voru aldrei með skortstöðu og því eiga þessar ásakanir ekki við nein rök að styðjast.

Undirritaður hefur um árabil hitt reglulega marga af stærstu fjárfestum heims og skipst á skoðunum við þá. Það var ljóst að ef einhver slíkur aðili myndi ákveða að rústa íslensku krónunni, hafði hann það í hendi sér. Það skipti því miklu að skilja áætlanir þessara fjárfesta.

DV kaus að halda fram röngum og meiðandi fullyrðingum þrátt fyrir að undirritaður hafi ítrekað hrakið sömu fullyrðingar í samskiptum við blaðamann DV dagana áður en fréttin var birt. Verði þessar fullyrðingar ekki dregnar tilbaka á undirritaður ekki annars kost en að höfða meiðyrðamál gegn DV til að fá ummælin ómerkt og tjón sitt bætt.“

Spurningar DV til Novators og svör eru svohljóðandi:

1.       Tók Novator stöðu gegn íslensku krónunni á árunum 2006 og 2007?

Novator tók ekki stöðu gegn íslensku krónunni á árunum 2006 og 2007. Félagið átti ekki  í gjaldeyrisviðskiptum að heitið gat.  Önnur félög tengd Björgólfi Thor áttu hins vegar viðskipti með íslenskar krónur til að mæta þeirri áhættu sem fylgdi eignum sem metnar voru í krónum á þessum tíma. Mikil og þung umræða var þá um að íslenska krónan væri of hátt skráð og endurspeglaði ekki með eðlilegum hætti íslenskt efnahagslíf.

Þegar íslenska krónan veiktist veturinn 2007-2008 stóðu þessi félög öll með krónunni, öfugt við marga aðra. Var það talið mikilvægt til að verja heildarhagsmuni eiganda félaganna.  Viðskiptin sem félögin áttu á þessum tíma voru til þess fallin að styrkja krónuna, en ekki veikja hana. Hins vegar er ljóst að áhrifin urðu í mesta lagi til sveifluminnkunar. Inni á vefnum btb.is er skýringarmynd yfir viðskipti félaga sem tengdust Björgólfi Thor með íslenskar krónur. Í þessu samhengi er rétt að taka fram, vegna þeirrar sölu á krónum sem kemur fram á árinu 2007, að félögin tóku aldrei stöðu umfram eigið fé gegn krónunni, þ.e. ekki var um „stöðutöku“ að ræða samkvæmt skilgreiningum. Þessar tímasetningar eru auðvitað ákaflega mikilvægar til að varpa ljósi á ætlaðar stöðutökur gegn íslensku krónunni á hættutímum.

Þarna er líka rétt að vísa til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en 13. kafli hennar fjallar sérstaklega um stöðutöku gegn krónunni og þar er farið ítarlega yfir viðskipti félaga og fjármálastofnana. Kaupþing var stór kaupandi gjaldeyris á árunum 2007 og 2008 (þ.e. seldi íslenskar krónur og keypti gjaldeyri) –og í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna –  á meðan Landsbankinn veitti gjaldeyri út á markaðinn (keypti krónur og seldi gjaldeyri). Fimm félög skáru sig úr í stöðutöku gegn krónunni:  Exista og Kjalar, sem voru tveir af stærstu hluthöfum Kaupþings, Baugur og tvö félög tengd Baugi. Þá tóku lífeyrissjóðir einnig virkan þátt. Félagið Novator er hvergi nefnt á nafn, né önnur félög tengd Björgólfi Thor, enda stóðu þau ekki í slíkum viðskiptum.

Það er sérstaklega umhugsunarvert hvers vegna DV kýs að fjalla um hugsanleg gjaldeyrisviðskipti félaga á þeim nótum sem spurningarnar gefa til kynna. Var það ekki gríðarleg stöðutaka gegn krónunni á síðustu mánuðum fyrir sjálft hrunið sem gerði þar útslagið? Það er augljóslega mat Rannsóknarnefndar Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu að Kaupþing og tengdir aðilar hefðu þar verið í aðalhlutverki.

2.       Spurning: Vann Heiðar Már Guðjónsson í þessum málum hjá Novator?

Heiðar Már Guðjónsson vann hjá Novator og sinnti markaðsviðskiptum þ.á m. viðskiptum með gjaldeyri. Hann vann ekki í „þessum málum“ hjá Novator, ef vísað er til stöðutöku gegn krónunni, enda ekki um slíka stöðutöku að ræða.

3.       Spurning: Hvernig stóð á því að Jim Leitner  settist í stjórn Straums?

James Leitner var forstjóri Falcon Management Corporation í Bandaríkjunum. Hann kom í stjórn Straums í kjölfar þess að bandarískur fjárfestingarsjóður eignaðist verulegan hlut í Straumi.

4.       Spurning: Hver voru samskipti Björgólfs við Leitner áður en til þess kom að hann settist í stjórn Straums?

Samskipti Björgólfs Thors við Leitner voru engin áður en til stjórnarsetu hans kom. Heiðar Már Guðjónsson, sem starfað hafði um árabil í fjármálafyrirtækjum í Bandaríkjunum, kynnti Björgólf Thor fyrir Leitner.

5.       Spurning: Hefur Björgólfur verið í samskiptum við Bruce Kovner eða starfsmenn hans í NY?  Hann rekur vogunarsjóð undir nafninu Caxton.

Nei, Björgólfur Thor hefur ekki verið í samskiptum við Bruce Kovner, starfsmenn hans eða vogunarsjóðinn Caxton og hefur aldrei hitt manninn.

6.       Var Björgólfur meðvitaður um fundi sem Heiðar Már átti í við George Soros og Bruce Kovner í New York í lok janúar 2007? Heiðar Már var þá starfsmaður Novators. Þar var rætt um stöðutöku gegn íslensku krónunni.

Nei, Björgólfur Thor minnist þess ekki að hafa heyrt af  slíkum fundi.  Heiðar Már getur einn svarað um þá fundi sem hann á að hafa setið.

7.       Stendur Björgólfur Thor við yfirlýsingar sínar um að að hafa ekki komið að því að með beinum eða óbeinum að taka stöðu gegn íslensku krónunni?

Félög á vegum Björgólfs Thors hafa lengi staðið í viðskiptum með gjaldeyri – bæði keypt og selt og þ.m.t. íslenskar krónur. Þau viðskipti hafa þjónað þeim tilgangi að mæta áhættu sem fylgir fjárfestingum í öðrum gjaldmiðlum en fyrirtæki hans kjósa helst að vinna með.  Þannig byggðu félög tengd Björgólfi Thor eða Novator upp umtalsverða gengisvörn , einkum á árunum 2005 og 2006, til að verja eignir sínar á Íslandi gegn mögulegri lækkun krónunnar.  Á þessum tíma veiktist hins vegar gjaldmiðillinn ekki, heldur þvert á móti styrktist, og er því ljóst að umrædd viðskipti höfðu ekki áhrif til lækkunar krónunnar.

Á þeim tíma sem krónan veiktist sem mest, sér í lagi á árinu 2008, seldu félög tengd Björgólfi Thor og Novator ekki krónur heldur þvert á móti keyptu þær og drógu úr umfangi áhættuvarna sinna.  Þetta sést með skýrum hætti á btb.is

Þar með stendur Björgólfur Thor við þær yfirlýsingar sínar að viðskipti félaga honum tengdum með gjaldeyri séu alls ekki áhrifavaldar í gengisfalli krónunnar á árinu 2008.