Deutsche Bank er ekki hluthafi í Actavis

Vegna frétta um að Deutsche Bank hafi fengið heimild frá samkeppnisyfirvöldum ESB til yfirtöku á Actavis er rétt að ítreka að bankinn er ekki hluthafi í Actavis. Heimildin er formsatriði vegna ákvæða í samningum um fjárhagslega endurskipulagningu Actavis en efnisatriði þess samnings eru ekki opinber.  Það sem upplýst hefur verið og liggur fyrir er að ég er stærsti hluthafinn í félaginu og sit í stjórn þess.


 

 „Deutsche Bank er ekki hluthafi í Actavis Group og Björgólfur Thor Björgólfsson er sem fyrr stærsti hluthafinn“ sagði í fréttatilkynningu frá Actavis 9. september sl. Sú tilkynning var ítrekun á fyrri yfirlýsingum frá félaginu.  Í fréttaskrifum í dag, t.d. í Morgunblaðinu, er því haldið fram að Deutsche Bank hafi verið veitt heimild fyrir yfirtöku bankans á íslenska samheitalyfjafyrirtækinu Actavis. Áður höfðu fjölmiðlar greint frá því í byrjun september að Deutsche Bank hefði tilkynnt fjárhagslega endurskipulagningu lyfjafyrirtækisins til samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins. Talsmaður minn, Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsti þá að tilkynning Deutsche Bank væri tæknilegt atriði, sem lyti að því að fá formlegt samþykki fyrir samningum um fjárhagslega endurskipulagningu Actavis. Þeir samningar hafa nú verið samþykktir með formlegum hætti, en í því felst engin „yfirtaka“ bankans á Actavis.

 

Actavis er einkafyrirtæki á samkeppnismarkaði og hefur kosið að gefa ekki upp einstök atriði í samningum við stærsta viðskiptabanka sinn um fjárhagslega endurskipulagningu. Fyrirtækið hefur hins vegar staðfest, eins og segir hér í upphafi, að Deutsche Bank sé ekki hluthafi og ég sé sem fyrr stærsti hluthafinn.