Átti að bjarga Straumi? Já.

Fjárfestingarbankinn Straumur-Burðarás hf. hafði alla burði til að standa af sér hrun bankakerfisins á Íslandi. Bankinn var enda starfræktur allt fram í mars 2009, þegar ríkið tók hann yfir með ógagnsæjum og illskiljanlegum aðgerðum sínum. Í pistli á baksíðu Viðskiptablaðsins fimmtudaginn 9. september sl. kemst Magnús Halldórsson blaðamaður að þeirri niðurstöðu að það hafi verið rétt ákvörðun af hálfu ríkisins að fella Straum. Magnús segir almannahagsmuni ekki hafa krafist þess að Straumi yrði bjargað, enda hafi bankinn ekki verið viðskiptabanki. En til að skoða spurninguna um hvort bjarga hefði átt bankanum þarf að huga að fleiru en blaðamaðurinn gerir hér.

Fyrst af öllu er rétt að rifja upp að markmiðið með stuðningi opinberra aðila við banka í nauð er ekki til að bjarga hluthöfum heldur til að koma í veg fyrir að verðmæti eigna bankans rýrni ekki við það eitt að bankinn fari í þrot. Sú rýrnun kemur illa við aðra í fjármálakerfinu eins og t.d. eigendur skuldabréfa, fyrirtæki í viðskiptum við bankann og aðra sem afskrifa þurfa eignir í framhaldinu. Með því að styðja við banka í erfiðleikum er verið að gefa honum færi á að standa við skuldbindingar sínar og þar með að lágmarka tjón annarra.

Þá er rétt að benda á, að  Straumur fékk ekki sama stuðning og hið opinbera taldi rétt að veita öðrum og jafnræði aðila var þannig virt að vettugi. Ríkið ákvað til dæmis að styðja við VBS fjárfestingarbanka með rúmlega 26 milljarða láni, vegna skuldbindinga bankans við Seðlabanka Íslands. Lánið var veitt í mars 2009, í sama mánuði og ríkið ákvað að fella Straum. Bankinn varð hins vegar ógjaldfær réttu ári síðar og Viðskiptablaðið upplýsti 26. ágúst sl. að grunur léki á að þetta ár hefði m.a. verið notað til að hygla stjórnendum bankans og völdum kröfuhöfum á kostnað almennra kröfuhafa. Ef rétt er, má teljast með ólíkindum að hið opinbera hafi ekki haft betra eftirlit með starfsemi bankans. Ríkið veitti Saga Capital tæplega 20 milljarða lán á sömu kjörum á sama tíma og hefur líka komið að endurfjármögnun smærri og stærri sparisjóða og lagt þeim til fé.

Í upphafi árs 2009 vann Straumur-Burðarás að sölu eigna og hafði náð samkomulagi við erlenda kröfuhafa um framlengingu á lánum, eins og rakið er í sagnfræðilegri samantekt. Bankinn átti mikið eigið fé, var með stærstan hluta starfsemi sinnar á erlendri grundu og hafði staðið af sér ólgusjó bankahruns, en átti við lausafjárvanda að stríða. Með tímabundinni fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum hefði Straumur getað staðið við allar skuldbindingar sínar.

Þegar ljóst var í byrjun mars að Seðlabankinn ætlaði ekki að styðja við Straum ákváðu stjórnendur bankans að óska eftir greiðslustöðvun. Áður en á slíkt reyndi tók Fjármálaeftirlitið bankann yfir. Þrátt fyrir að bankinn hafi verið felldur finnst ekki eitt einasta skjal sem varðar málið í skjalasafni forsætisráðuneytisins. Engin skjöl hafa heldur fundist í fórum fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins eða Seðlabankans. Allt bendir til að um órökstudda geðþóttaákvörðun hafi verið að ræða, þar sem ekki var gætt að jafnræði aðila, en stjórnvöldum ber lögum samkvæmt að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Þá er einnig mikilvægt að benda á að í pistli sínum fjallar blaðamaðurinn ekki um þá ákvörðun yfirvalda að koma í veg fyrir vilja stjórnar og stjórnenda Straums um að setja bankann í greiðslustöðvun. Til þess beittu fjármálayfirvöld neyðarlögum sem voru í þeim tilgangi að koma fyrir öngþveiti í október 2008 en sú hætta var í mars 2009 löngu liðin hjá. Var það líka eðlileg stjórnvaldsákvörðun að mati blaðamanns Viðskiptablaðsins?