Áfram tilhæfulaust fjaðrafok hjá DV

DV heldur áfram staðlausum upphrópunum sínum og ásökunum um stöðutöku gegn krónunni og telur margítrekuð varnaðarorð um veikan gjaldmiðil til vitnis um pukur og ámælisvert leynimakk. Blaðið skilur ekki muninn á sjálfsvörn og árás í gjaldeyrisviðskiptum. Í dag beinir DV spjótum sínum að Samson og kveðst hafa tölvupósta frá árinu 2007 undir höndum sem sýni að Heiðar Már Guðjónsson hafi lýst áhyggjum sínum af veikri krónu við eigendur Samson. Ástæðulaust ætti að vera að benda á að fjölmargir deildu þeirri skoðun að krónan væri veikur gjaldmiðill og síðar kom á daginn að þeir höfðu rétt fyrir sér. Frá þessum gömlu upplýsingum tekur DV síðan það risastökk að álykta um árásir Samson á krónuna. Slíkum aðdróttunum er hér með vísað til föðurhúsanna.

 

Samson stóð ávallt með þeirri sannfæringu sinni að íslenskar eignir bæri að fjármagna í íslenskum krónum, þrátt fyrir óhóflegan vaxtakostnað.  Þar sem félagið sótti sitt lánsfé fyrst og fremst á erlenda markaði beitti félagið afleiðusamningum til að verja gengisáhættu sína.  Slíkt gera félög um allan heim. Í þessu fólst ekki stöðutaka gegn krónunni – þvert á móti.  Þegar krónan veiktist sem mest á árinu 2008 dró félagið úr áhættuvörnum sínum samhliða lækkandi eignaverði – keypti sem sagt krónur og seldi gjaldeyri.  Þar með er ómögulegt að álykta að aðgerðir félagsins hafi haft áhrif á fall krónunnar. Lesendum til nánari glöggvunar er rétt að vísa á meðfylgjandi  skýringarmynd, sem segir meira en mörg orð.  Af henni er ljóst að Samson seldi alls ekki krónur þegar gengið féll, heldur keypti þær, öfugt við marga aðra. Þrátt fyrir að DV hafi verið bent á þessa mynd hefur blaðið ekki séð ástæðu til að birta hana, heldur kýs að hunsa sannleikann og hafa það sem betur hljómar.

ISK-vidskipti-2007-2008