VÍS óvænt selt
Daginn eftir fundinn með þremenningunum bárust óvænt tíðindi. Landsbankinn hafði selt stóran hluta bréfa sinna í Vátryggingafélagi Íslands. Alls voru seld um 27% af heildarhlutafé í VÍS. Einnig var samið um sölurétt, allt að 21%. Hluturinn var seldur Keri hf., Samvinnulífeyrissjóðnum, Andvöku og Samvinnutryggingum. Allt voru þetta félög tengd Samvinnuhreyfingunni og Framsóknarflokknum og höfðu lýst yfir áhuga á báðum bönkunum (svokallaður S-hópur). Rætt var um það í fjölmiðlum að þarna væri verið að ,,bjarga“ VÍS áður en Landsbankinn yrði seldur (og færi í rangar hendur).
Lögmaður Samson-hópsins sendi í kjölfarið tölvupóst til einkavæðingarnefndar. Bent var á að um 17% af hagnaði LÍ á fyrri hluta ársins væri rakinn til starfsemi VÍS. Spurt var hvort einkavæðingarnefnd hefði verið kunnugt um þessi viðskipti og hvort ekki hefði verið eðlilegt að ræða þau á fundinum með Samson sem fram fór aðeins deginum áður. Einnig var bent á að allir þeir sem keyptu hlutabréf í VÍS væru í viðræðum um kaup á kjölfestuhlut í LÍ og hefðu síðast rætt við nefndina daginn sem VÍS var selt. Spurt var hvort málefni VÍS hefðu verið rædd á þeim fundi. Í bréfinu kom fram að forstjóri þriðja aðilans, Kaldbaks, sæti jafnframt í stjórn Samvinnutrygginga og Andvöku sem voru meðal þeirra fyrirtækja sem keyptu hlutinn í VÍS. Forstjórinn hafi raunar greitt atkvæði með því að gera tilboð í VÍS á stjórnarfundi Samvinnutrygginga. Að mati lögmanns Samsonar var hætt við hagsmunaárekstrum vegna þessara tenginga og mögulegs vanhæfis til að kaupa kjölfestuhlutinn í Landsbankanum. Forstjórinn tjáði sig við fjölmiðla um málið og sá ekkert athugavert við stöðu sína og gjörðir.
Einum mánuði eftir þessi viðskipti með VÍS var Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og Seðlabankastjóri, ráðinn forstjóri VÍS.