Veikur gjaldmiðill veikti fjármálakerfið og jók sveiflur og spákaupmennsku

Væntanlega verður það ein af stóru rannsóknarspurningum hagfræðinnar í framtíðinni hvernig heilt samfélag taldi sér trú um að hægt væri að byggja alþjóðlegt fjármálaveldi á veikustu örmynt veraldar. Nær allir þeir sem tjáð sig hafa eftir hrunið og til þekkja um þróun íslenska fjármálakerfisins á árunum 2002 – 2008 telja að veiki hlekkurinn í keðjunni hafi verið gjaldmiðillinn og að peningastefna Seðlabanka í umboði ríkisvaldsins, – hin svokallaða hávaxtastefna, hafi margfaldað gengisáhættu kerfisins alls. Fjármálasérfræðingar og fjárfestar í íslensku fjármálafyrirtækjunum telja margir það sína helsu yfirsjón að hafa vanmetið þau lífshættulegu áhrif sem það hefði á íslensku bankana að krónan, sem þeir vissu að stóð höllum fæti, tæki að gefa sig og yrði verðlaus í vaxandi alþjóðlegri lausafjárkreppu. Margir naga sig í handabökin yfir því að hafa ekki séð fyrir hættuna af því að geta ekki borgað erlendar skuldir þrátt fyrir að vera með alla vasa fulla af íslenskum peningum.

Hávaxtastefnan og veikur gjaldmiðill ýttu undir sveiflur í efnahags- og fjármálalífi á Íslandi. Við slíkar aðstæður bregða spákaupmenn gjarnan á leik enda skapa miklar breytingar á skömmum tíma ýmis tækifæri á skjótfengnum gróða. Tvenns konar fjármálaafurðir litu dagsins ljós við þessar aðstæður. Önnur var svokölluð jöklabréf, en hin afurðin var gjaldeyrisskiptasamningur sem gerði mönnum m.a. kleift að græða á falli íslensku krónunnar. Báðar þessar afurðir höfðu dramatísk áhrif á framvindu mála í aðdraganda hrunsins, hvor á sinn hátt. Jöklabréfin héldu skráðu gengi krónunnar miklu hærra en umsvif atvinnulífsins gáfu tilefni til og áttu því verulegan þátt í því að ódýrt erlent lánsfé streymdi inn til Íslands, – lán sem almenningur og fyrirtæki eiga nú í miklum erfiðleikum með að greiða. Gjaldeyrisskiptasamningarnir leiddu hins vegar til þess að aðilar á markaði tóku stöðu gegn krónunni, m.ö.o. þá veðjuðu þeir á að gengi krónunnar félli. Þar með varð til þrýstingur á og svo yrði, – og það varð raunin. Krónan hrundi með þeim afleiðingum innfluttar vörur á Íslandi hækkuðu verulega og Íslendingar þurftu að öngla saman fleiri krónum en ella til að greiða sín erlendu lán.

Öfugt við það sem ýmsir fjölmiðlar og sérfræðingar hafa haldið fram þá stóðu fyrirtæki tengd Björgólfi Thor með íslensku krónunni og keyptu íslenska krónu í miklum mæli á árinu 2008, – eins og lesa má um hér.