Útrásin var einstefna
Hugmyndir margra Íslendinga um útrás virtust byggja á þeim misskilningi að alþjóðavæðing viðskiptalífsins snérist um það eitt að þiggja en aldrei að láta neitt af hendi. Íslensku bankarnir tóku lán í útlöndum sem þeir lánuðu áfram til íslenskra fyrirtækja sem keyptu eignir í útlöndum og veðsettu þær. Erfitt var í mörgum tilfellum að sjá virðisaukandi framlag Íslendinga. Björgólfur Thor gerði strax árið 2005 athugasemdir við þennan hugsunarhátt í ræðu þar sem hann sagðist vera frekar í innrás en útrás því hann hefði fjárfest hér á landi með fjármunum sem hann aflaði erlendis.
Þátttaka Íslendinga í alþjóðavæðingu viðskiptalífsins var í raun einstefnugata sem kölluð var útrás. Íslenskir bankar lánuðu íslenskum fyrirtækjum erlent lánsfé til fjárfestinga í útlöndum. Alþjóðavæðingin fól að litlu leyti í sér fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi eða að íslenskir aðilar fjárfestu með eigin fé í verkefnum ytra. Björgólfur Thor gagnrýndi þessar aðferðir og hugmyndafræði í ræðu á Viðskiptaþingi árið 2005. Þar sagði hann m.a.:
„Þrátt fyrir að íslenskt atvinnulíf sé á góðu skriði og yfirbragð þess svipi æ meir til þess sem gerist á Vesturlöndum þá finn ég oft fyrir viðhorfum einangrunar sem gætu reynst okkur fjótur um fót þegar íslenskur efnahagur verður þéttar ofinn í vef alþjóðaviðskipta.
Eitt besta dæmið úr umræðu síðustu mánaða er sú viðleitni að kalla allar tilraunir íslenskra fyrirtækja til að stækka markað sinn erlendis – útrás. Fyrir utan að hugtakið er orðið klisja og merkingarlítið, þá lýsir það heimóttarskap. Samkvæmt þessu nýja hugtaki þá var langafi minn, Thor Jensen í útrás fyrir einni öld. Og þar sem hann var danskur innflytjandi var það væntanleg innrás þegar hann settist hér að. Hafa íslensku sölusamtökin í sjávarútvegi verið í útrás allt frá upphafi? Voru kaup félaga minna og mín á kjölfestuhlut í Landsbankanum útrás eða innrás? – peningarnir voru upprunnir erlendis. Nú og þar sem ég er búsettur í Englandi er tilboð Landsbankans í Teather & Greenwood verðbréfafyrirtækið í London væntanlega innrás eða hvað?
Þetta sjónarhorn er ástæðulaus tvíhyggja eyjaskeggja þar sem okkur er stillt upp gegn þeim. Það alþjóðasamfélag sem við búum í er ekki þannig. Við og þeir breytist dag frá degi. Þegar íslensk fyrirtæki leita og finna nýja markaði fyrir vörur sínar og þjónustu í Bandaríkjunum, Evrópu eða Asíu þá er það hvorki innrás né útrás, – það er einfaldlega eðlileg framrás, – sjálfsögð sjálfsbjargarviðleitni fyrirtækja sem starfa í alþjóðlegu umhverfi. Framfarir í íslensku atvinnu – og menningarlífi verða að veruleika þegar í hugum allra þykir jafn sjálfsagt að að bjóða vörur sínar, þjónustu, list eða aðrar afurðir í Rómaborg og Reykjavík, – Akureyri og Amsterdam.“
En þar sem umræðan á Íslandi hefur beinst að útrásinni þá er ekki síður mikilvægt að halda til haga að innrás Björgólfs Thor var mun umfangsmeiri en útrás hans. Á tímabilinu 2002 til 2008 fjárfestu erlend félög Björgólfs Thors á Íslandi fyrir um 400 milljarða króna og komu íslenskir bankar mjög lítið að fjármögnun þeirra verkefna. Í samantekt Viðskiptablaðsins kom fram að Björgólfur Thor flutti inn í landið álíka fjárhæð og aðrir fluttu út.