Umfang hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu

Í skýrslu sinni um ástæður falls íslensku bankanna draga fyrrum bankastjórar Landsbankans fram þá staðreynd að sú fjármálakreppa, sem hóf innreið sína síðari hluta ársins 2007 er af stærðargráðu sem á sér engin nútíma fordæmi. Þeir birta skýringamynd þar sem borið saman markaðsvirði banka á miðju ári 2007 og í ársbyrjun 2009. Eins og sjá má þá eru verðmæti stærstu banka heims eins og Citgroup, Bank of America, HSBC, Society General og RSB í janúar 2009 aðeins um 5 – 30% af því sem þau voru 18 mánuðum fyrr. Þá benda þeir á að bein inngrip og stuðningur ríkisvaldsins í nær öllum löndum á Vesturlöndum var meira en nokkur dæmi eru um á 20. öldinni en yfirlit yfir þau má sjá hér. Í skýrslunni vara þeir við þeim skilningi að bankahrun hafi verið séríslenskt fyrirbæri og benda sérstaklega á hve breskir bankar voru illa farnir þegar stjornvöld komu þeim til hjálpar.