Tilraunir til að sameina Straum öðrum félögum

Margoft fóru fram viðræður um sameiningu Straums og annarra fjármálastofnana, hérlendis og erlendis, á meðan Samson Global Holding var kjölfestufjárfestir í bankanum. Markmiðið var að styrkja eiginfjárstöðu og fjármögnunarmöguleika fyrirtækjanna í sameinaðri fjármálastofnun, draga úr áhættu, hagræða í rekstri með samlegðaráhrifum og dreifa starfsemi landfræðilega.

Fyrst var sett fram tillaga um sameiningu Straums og Landsbankans í september 2006, en sem kunnugt er var Samson ehf., einnig í eigu félaga Björgólfs Thors og föður hans, kjölfestufjárfestir í Landsbankanum. Ekkert varð úr þeim viðræðum og ekkert heldur í júní 2007, september 2007 og nóvember 2007. Viðræður í ágúst og september 2008 skiluðu heldur engu. Í viðtali við Viðskiptablaðið í júlí 2010 við Björgólf Thor þar sem hann greinir frá ágreiningi sínum við Sigurjón Þ. Árnson annan þáverandi bankastjóra Landsbankann segir hann að hann hafi ekki náð því í gegn að sameina Landsbankann og Straum og koma reyndum erlendum að við stjórn bankans.

Í millitíðinni, í desember 2007, fóru fram umleitanir um að sameina Landsbanka, Straum og Glitni í einn sterkan viðskiptabanka. Í febrúar 2008 var rætt hvort sameina ætti Landsbanka, Straum og Close Brothers, breskan banka með fjölbreytta fjármálastarfsemi.

Í maí og september 2008 fóru fram viðræður um hugsanlegan samruna Straums og sænska fjárfestingarbankans Carnegie og í júlí sama ár hófust tilraunir til að sameina Straum og breska fjármálafyrirtækið Collins Stewart. Að síðustu var rætt um hugsanlegan samruna Straums og Panmure Gordon, bresks fjárfestingabanka.