Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. – öflugur banki með mikið eigið fé

Straumur-Burðarás varð til með sameiningu Straums og Burðaráss í september 2005. Við sameininguna varð til stærsti fjárfestingarbanki Íslands. Samanlagt áttu félög í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og Björgólfs Guðmundssonar stærstan hlut í sameinuðum banka og varð Björgólfur Thor því stjórnarformaður hans.

Undir forystu Björgólfs Thors breytti Straumur um stefnu. Straumur varð alþjóðlegur banki með höfuðstöðvar og rætur á Íslandi. Fyrirtækið opnaði skrifstofur í Lundúnum, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi, auk þess sem það keypti meirihluta í finnska bankanum eQ í júní 2007 og meirihluta í Wood and Company, leiðandi fjárfestingarbanka í Mið- og Austur-Evrópu.

Um leið var hafist handa við að minnka áhættu í rekstri Straums og breyta honum úr hreinræktuðum fjárfestingarbanka í banka sem reiddi sig í meira mæli á tekjur af þjónustu við viðskiptavini. Lykilþáttur í þessari þróun varð þegar William Fall var ráðinn forstjóri Straums í maí 2007. Með þeirri ráðningu leitaðist Straumur, undir forystu Björgólfs Thors, við að afla íslensku viðskiptalífi alþjóðlegrar reynslu, sem Björgólfi fannst vera tilfinnanlegur skortur á.

Straumur hlaut viðskiptabankaleyfi í ágúst 2007.

Hrun hinna íslensku viðskiptabankanna í byrjun október 2008 var mikið áfall fyrir rekstur Straums. Bankinn stóð þó af sér fárviðrið um stund, eða þar til 9. mars 2009, þegar skilanefnd tók rekstur bankans yfir.