Samson sýnir áhuga

Söluþreifingar ríkissjóðs og HSBC bankans lágu niðri árið 2002. Þá gerðist það að hinn 27. júní  sendu þremenningarnir Björgólfur Thor Björgólfsson, Björgólfur Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson framkvæmdanefnd um einkavæðingu bréf og fyrir hönd óstofnaðs eignarhaldsfélags síns (er síðar hlaut nafnið Samson) lýstu vilja til að kaupa að minnsta kosti 33,3% af hlutafé ríkisins í Landsbankanum. Í bréfinu lýstu þremenningarnir þeirri skoðun sinni að nauðsyn væri á einum stórum kjölfestufjárfesti sem hefði alþjóðlega þekkingu og reynslu á sviði banka- og fjármálastarfsemi. Þá reynslu hefðu þeir í gegnum ýmis viðskipti sem tilgreind voru og bentu á að þeir hefðu staðist áreiðanleikakönnun hjá nokkrum virtustu bönkum og fjármálastofnunum heims. Með þessum samböndum og reynslu gætu þeir styrkt Landsbankann verulega.

Óskað var eftir viðræðum um kaupin og taldar voru upp ýmsar forsendur þremenninganna, meðal annars um sölugengi hlutabréfanna.