Samson hópurinn valinn

Einkavæðingarnefnd ákvað 9.september að gengið yrði til viðræðna við Samson eignarhaldsfélag um kaup á kjölfestuhlut í Landsbankanum. Ákvörðunin var sögð byggð á þeim forsendum sem nefndin hafði sett sér og einnig á mati HSBC bankans á þeim gögnum sem borist hefðu frá hópunum þremur sem rætt hefði verið við. Samson fagnaði ákvörðuninni í tilkynningu til fjölmiðla og minntu á að forsendur tilboðs félagsins hefðu lengi legið fyrir.

Nefndin setti fram nokkra fyrirvara sem hún vildi að lægju fyrir áður en formlegar viðræður gætu hafist. Einn þeirra snéri að því að nefndin taldi sig ekki bundna af verðbilinu 3,00 til 3,90 sem Samson hafði frá upphafi lagt til grundvallar. Að mati nefndarmanna var eðlilegra  að líta til markaðsverðs að viðbættu álagi og það verð væri hærra en 3,90. Samson menn svöruðu þessu daginn eftir og ítrekuðu að grunnforsendur hafi verið ljósar frá upphafi og verðbilið sé áfram 3,0 til 3,90. Nefndin hefði valið Samson til viðræðna út frá þessum forsendum og ef virða ætti þessar forsendur Samson að vettugi væri ekki grundvöllur til frekari viðræðna.