Samningur um kaup Samsonar eignarhaldsfélags ehf. á kjölfestuhlut í Landsbankanum

Kaupsamningur ríkisins og Samson eignarhaldsfélags um kaup á 45,8% hlut í Landsbankanum var gerður 31. Desember 2002. Kaupverðið í heild nam rúmum 139 milljónum bandaríkjadala. Samið var um hvernig greiðslur skyldu inntar af hendi. Helmingur þeirra hluta sem afhentir skyldu í fyrstu lotu yrði staðgreiddur með eigin fé (16,65%) en síðari helmingurinn (16,65%) fjármagnaður með lánsfé. Varðandi fjármögnun á síðari lotunni (12,5%) var gert ráð fyrir að sú fjárhæð væri að hluta lánsfé. Miðað við þessar forsendur var gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall kaupanda yrði aldrei lægra en 34,5% af heildinni. Aðilar voru sammála um það að kaupandi mætti ekki fjármagna kaupin með þátttöku Landsbankans sjálfs. Ekkert var hins vegar minnst á fjármögnun frá öðrum íslenskum bönkum og hvergi minnst á það hversu stór hluti kaupverðsins skyldi vera í erlendum gjaldeyri.

Samson menn settu fram ákveðin skilyrði. Til dæmis það að mögulegir kaupendur að kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum fengju ekki betri kjör. Kom það skýrt fram í fjölmiðlum á þeim tíma. Í skilyrðum ríkisins kom meðal annars fram að kaupandinn yrði að leita samþykkis fjármálaeftirlita á Íslandi og í Bretlandi. Einnig að Samson hópnum, einstökum hluthöfum eða tengdum aðilum, væri óheimilt að gera eða standa fyrir tilboði í Búnaðarbankann.

Einnig var reifað í samningnum að aðilar myndu reyna að ná samkomulagi um kjör í bankaráð Landsbankans. Tekið var fram að kaupanda væri óheimilt að selja, veðsetja eða ráðstafa á annan hátt, þeim hlutum sem afhentir skyldu í fyrstu lotu í 21 mánuð frá undirritun samnings nema að fengnu skriflegu samþykki seljanda. Það ákvæði átti þó ekki að standa í vegi fyrir hugsanlegum samruna Landsbankans við aðrar fjármálastofnanir eða yfirtöku annarra á Landsbankanum. Einnig kom fram að það væri yfirlýst markmið Samson hópsins að eiga þá hluti sem keyptir voru í fjögur ár hið minnsta frá undirritun. Í þessu fólst þó ekki bein skuldbinding til þess.

Tekið var fram að vegna mismunandi mats á vaxandi afskriftaþörf Landsbankans hefðu  aðilar komið sér saman um sérstakar aðferðir til að meta ákveðnar eignir Landsbankans og skyldi það mat fara fram í október 2003.