Of mikil áhersla á eiginfjárbindingu banka á kostnað reglna um lausafjárstöðu

Í ítarlegri skýrslu fyrrum bankastjóra Landsbankans, Halldórs J. Kristjánssonar og Sigurjóns Þ. Árnasonar, um þróun mála í aðdraganda hruns bankakerfisins draga þeir upp athyglsiverða mynd af því hvernig lausafjármarkaðir heimsins þróuðust á síðustu árum Þar segir m.a.:

„Í stuttu máli má segja að ein stærsta ástæða lausafjárkreppunnar í heiminum hafi verið sú að samtök Seðlabanka, BIS, lögðu of mikla áherslu á CAD-eiginfjárreglur, á kostnað reglna um lausafjárstöðu. Þau einbeittu sér að því að rýmka reglur um eigið fé, en gleymdu lausafjárþættinum. Þá hafa alþjóðlegar reglur um reikningsskil (IFRS) ýkt allar breytingar á eignaverði og koma fram af fullum þunga til lækkunar á eignaverði í lausafjárkreppu.

Leyfð var nakin skortsala á skuldatryggingum og hlutabréfum, þ.e. án þess að seljandi þyrfti að fá viðkomandi bréf að láni. Í raun var heimilt að tryggja eignir sem menn áttu ekki og höfðu þeir því allan hag af því að eign yrði fyrir tjóni.

Rofin voru tengsl milli banka og lántakenda, sbr. skuldavafninga og undirmálslán. Sá sem veitti upphaflegt lán gerði ekki ráð fyrir að þurfa að takast á við vandamál sem kæmu upp við vanskil. Hefbundin bankaleg sjónarmið viku fyrir sölumennsku.

Þá hefur komið í ljós, eins og má ráða af því sem hér hefur fyrr komið fram, að stuðningur ríkisvalds er a.m.k. jafn mikilvægur og hlutverk seðlabanka sem lánveitanda til þrautavara.

 Aðgerðir alþjóðlegra eftirlitsaðila, m.a. OECD, munu miða að því að bæta lausafjár- og áhættustýringu, bæta gagnsæi og aðferðir við verðmat eigna, skilgreina hvert hlutverk lánshæfiseinkunna á að vera, styrkja hæfni yfirvalda til að bregðast við áhættu og bæta ráðstafanir til að mæta álagi á fjármálakerfinu.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði í ræðu 20. mars 2008:

„[…] Sumar hliðar á núverandi eiginfjárreglum og reikningsskilareglum magna líklega upp sveiflur í fjármálakerfinu og efnahagslífinu.“ (Chairman Ben S. Bernanke: Speech at the Independent Community Bankers of America‘s National Convention and Techworld, Phoenix, Arizona, 20. mars 2008, bls. 4.)“

Þá segir í skýrslu bankastjóranna að alþjóðlegar kannanir bendi til þess að almenningur telji marga eiga hlut að máli, þegar kemur að ástæðum fjármálakreppunnar. Samkvæmt frétt úr FT af könnun telja flestir, eða um 80% aðspurðra að viðskipta- og fjárfestingabankar beri ábyrgð á alheimskreppunni, en fast á hæla þeirra koma Seðlabankar, þá skortsölumenn hlutabréfa og hlutabréfaeigendur. Í kringum 60% telja að eftirlitsaðilar og stjórnmálaleiðtogar beri ábyrgð. Athygli vekur að yfir 40% aðspurðra telja
fasteignasala bera ábyrgð á fjármálakreppunni.

Halldór J. Kristjánsson ritaði einnig athyglisverða grein í Morgunblaðið í febrúar 2010 þar sem hann rekur með skýrum hætti þá strauma og boðaföll sem við var að eiga í aðdraganda hruns íslenska bankakerfisins.