Nægar upplýsingar til að meta verð?

Með bréfi einkavæðingarnefndar frá  4.september var greint frá því að verið væri að undirbúa ákvörðun um hver aðilanna þriggja yrði valinn til beinna viðræðna um kaup á hlutabréfum í Landsbankanum. Til þess að ákveða við hvern skyldi farið í beinar viðræður var óskað eftir upplýsingum um það verð sem hóparnir væru reiðubúnir að greiða. Að mati nefndarinnar lágu fyrir á þessum tíma nægjanlegar upplýsingar svo gefa mætti ákveðið í skyn hvaða verð hver aðili væri reiðubúinn að greiða. Sama dag, 4.september, sendi Björgólfur Thor nefndinni bréf. Þar bendir hann á að eftir sölu á eignarhlut LÍ í VÍS hefðu rekstrarforsendur breyst verulega. Hann hefði óskað eftir svörum við ákveðnum spurningum er það varðaði en ekki fengið með fullnægjandi hætti. Þær upplýsingar kynnu að hafa veruleg áhrif á það hvaða verð þremenningarnir væru tilbúnir að greiða. Einkavæðingarnefnd mætti vera ljóst að þessir þættir hefðu mikil áhrif á rekstrarhorfur LÍ til framtíðar og því væri ekki unnt að leggja mat á verðmæti bankans nema þeim væri svarað. Hann spurði einnig um gæði þeirra útlána sem bankinn hefði veitt. Berlega hefði komið í ljós þegar afkoma fyrstu sex mánaða ársins var kynnt að gjaldþrot nokkurra viðskiptavina hafði verulega neikvæð áhrif á afkomu bankans og bent til að afskriftareikningur bankans væri vanmetinn. (Mat á framlögum á afskriftareikning varð seinna að ágreiningsefni eftir að Samson hafði keypt hlutinn í bankanum.)