Fyrstir til að setja pening í gagnaver

Verne Holding var í upphafi að mestu í eigu Novators ehf. og bandaríska fjárfestingarsjóðsins General Catalyst Partners og var félagið stofnað um mitt ár 2007. Þann 26. febrúar 2008 undirrituðu forystumenn Verne Holding samninga við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurvallar um raforku, gagnaflutning og lóð fyrir nýtt alþjóðlegt gagnaver við Keflavíkurvöll. Þessir fjárfestar voru því þeir fyrstu til að setja fé í alþjóðlegt gagnaver á Íslandi. Gert er ráð fyrir því að fjárfestingar Verne Holding nemi um 20 milljörðum króna fram til ársins 2013.

Bæði Novator ehf. og General Catalyst Partners lögðu inn 14,75 milljónir USD fyrir helmingshlut í Verne Holding. Þeir eignarhlutar þynntust vegna kaupréttasamninga lykilstarfsmanna og á árinu 2009 voru hvor um sig ríflega 38%.

Þann 15. janúar 2010 var tilkynnt um hlutafjáraukningu hjá félaginu og að undirritaður hefði verið fjárfestingarsamningur við breska sjálfseignarsjóðinn Wellcome Trust. Ekki hefur verið greint frá því hver hlutur sjóðsins verður en eins og fram kom í fréttum þá verður hann stærsti hluthafinn í Verne Holding. Það verður að teljast stór sigur fyrir aðstandendur Verne Holding að fá Wellcome Trust til liðs við sig á þessu stigi verkefnisins og sérstaklega þegar haft er í huga ótryggt ástand í efnahags- og stjórnmálum á Íslandi.