Deilur um Straum sumarið 2006
Burðarás og Straumur voru sameinaðir árið 2006. Samson Global Holding, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og Björgólfs Guðmundssonar, varð stærsti einstaki hluthafinn í hinu sameinaða félagi, Straumi-Burðarási, en félagið var áður langstærsti hluthafinn í Burðarási. Björgólfur Thor varð formaður stjórnar hins nýja félags en fyrrum forstjóri Straums, Þórður Már Jóhannesson, varð forstjóri.
Fljótt varð vart við ágreining í félaginu, – jafnt hvað varðaði stefnu og starfshætti. Stjórnarmennirnir sem komu frá Straumi, Magnús Kristinsson, útgerðarmaður frá Vestmannaeyjum og Kristinn Björnsson fyrrum forstjóri Skeljungs, héldu hópinn og héldu samstarfi við forstjórann, Þórð Má, eins og sameining hefði aldrei átt sér stað að mati Björgólfs Thors. Björgólfur sagði í viðtali við Morgunblaðið í ágúst 2006: „Mér leið eins og ég væri að glíma við einhverja klíku þeirra þremenninga sem væri ekki að berjast fyrir sömu hagsmunum og lagðir voru til grundvallar við sameininguna.“
Ágreiningurinn við þremenningana var að mati BjörgólfsThors skýr – þeir sáu fyrirtækið ekki í sama ljósi og hann, hvorki hvernig byggja ætti innviði félagsins upp né hvernig standa ætti að því að gera bankann að alþjóðlegum fjárfestingarbanka. Að mati Björgólfs Thors einblíndu þremenningarnir um of á gengi bréfa í Straumi. Meðal annars lýsti Magnús yfir áhyggjum af því að gengi bréfa í Straumi-Burðarási hefði fallið vegna þess að greiningardeild Landsbankans hefði sagt félagið vera dýrt. Fáránlegt væri að vinna með mönnum sem bæru ábyrgð á slíkri greiningu.
Björgólfur Thor svaraði því til að hann stýrði ekki greiningardeild Landsbankans og að þetta væru barnalegar umræður. Hann sagðist einbeita sér að rekstri fyrirtækisins og að hann skipti sér ekki af gengi hlutabréfa frá degi til dags. Verkefni sitt væri að tryggja góðan rekstur og hagstæðar afkomutölur. Til langs tíma litið myndi gengið endurspegla það.
„Þá sagði Magnús að sér fyndist þetta út í hött – hann ætti allt undir og hluthafar hugsuðu aðeins um að gengið hækkaði sem mest á skömmum tíma. Ég sagði að mörg fyrirtæki, sem þekkt dæmi væru um erlendis eins og t.d. Enron, hefðu farið flatt á því að hugsa fyrst og fremst um gengið og að gera allt til að keyra það upp. Þarna kom fram djúpstæður skoðanaágreiningur milli meirihluta stjórnar annars vegar og þremenninganna hins vegar. Við lögðum mest upp úr stefnu til langs tíma og að byggja upp verðmæti til framtíðar, en Magnús og félagar einblíndu á sveiflur á gengi frá degi til dags,“ sagði Björgólfur í fyrrnefndu viðtali við Morgunblaðið.
Lyktir málsins urðu þær að Magnús, Kristinn Björnsson og tengdir aðilar seldu 24,2% hlut sinn í félaginu til FL Group og stigu úr stjórn. Í kjölfarið beitti Björgólfur Thor sér fyrir því að Friðrik Jóhannsson, sem áður gegndi stöðu forstjóra Burðaráss, var ráðinn forstjóri Straums-Burðaráss. Friðrik gegndi því starfi til miðs árs 2007, þegar William Fall var ráðinn forstjóri Straums-Burðaráss.
Björgólfur Thor, sem stjórnarformaður bankans, var hvatamaður að ráðningu Falls. Eins og fram kom í viðtali við Fall þá kynntust þeir Björgólfur Thor snemma árs 2007 og bar mögulegt samstarf þeirra fljótlega á góma. Fyrir Björgólfi Thor vakti að brjóta upp þann einhæfa hóp íslenskra stjórnenda sem réði öllu í íslensku fjármálalífi. William Fall var þaulreyndur bankamaður, fyrrum forstjóri Evrópudeildar Bank of America. Samtímis var stefnu bankans breytt, með það fyrir augum að draga úr áhættu og auka alþjóðlega starfsemi. Áherslan var lögð á tekjur af þjónustu við viðskiptavini, frekar en hreinræktaða fjárfestingabankastarfsemi. Um þetta er fjallað nánar í kaflanum Alþjóðavæðing Straums.