Alþjóðavæðing Straums
Eftir átökin um yfirráð í Straumi, sem lauk með því að Magnús Kristinsson, Kristinn Björnsson og tengdir aðilar seldu 24,2% hlut sinn í félaginu til FL Group og stigu úr stjórn, beitti Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður félagsins, sér fyrir því að stefnu bankans yrði breytt. Markmiðið var að byggja upp hefðbundinn alþjóðlegan fyrirtækja- og fjárfestingarbanka. Hann beitti sér fyrir því að Friðrik Jóhannsson, fyrrum forstjóri Burðaráss, yrði ráðinn tímabundið forstjóri Straums-Burðaráss og gegndi Friðrik stöðunni í tæpt ár. Björgólfur Thor nýtti árið til að leita að reyndum bankamanni með reynslu af stjórnun alþjóðlegra banka.
Að mati Björgólfs skorti mjög á það að íslenskt fjármálakerfi nyti góðs af reynslu erlendra bankamanna, sem hefðu lifað og hrærst í hinum alþjóðlega fjármálaheimi og vissu hvað klukkan slægi í þeim efnum. Einn slíkur maður fannst og var William Fall ráðinn forstjóri félagsins í maí 2007. William hafði um 25 ára starfsreynslu við alþjóðlega stórbanka en síðast hafði hann verið yfirmaður Evrópudeildar Bank of America en hjá honum störfuðu þá um 25 þúsund bankamenn. Í viðtali við Fall fljótlega eftir ráðningu hans komu áherslur hans skýrt í ljós. Hann vildi að vöxtur yrði heilbrigður og að bankinn yrði stærstur fjárfestingabanka á Norðurlöndum. Þá var ákvörðun tekin um að minnka áhættu í rekstri bankans, með því að selja hlutabréf í hans eigu og leggja aukna áherslu á þjónustu við viðskiptavini, frekar en kaup og sölu verðbréfa. Tilgangurinn með því var sem fyrr segir að draga úr tekjusveiflum og minnka áhættu en bankinn reiddi sig áður um of á brokkgengan söluhagnað verðbréfa. Þessu fylgdi síðan ráðningar á reyndum alþjóðlegum stjórnendum m.a. annars á sviði upplýsingatækni og á fjármála- og lánasviði. Við þetta varð Straumur-Burðarás alþjóðlegur banki með höfuðstöðvar á Íslandi en frá og með áramótunum 2006-7 hóf bankinn að gera upp í evrum. Bankinn hugðist svo skrá hlutabréf sín í evrum, en frestaði því vegna athugasemda frá Seðlabankanum.
Kaup á fyrirtækjum í Norður- og Mið-Evrópu á árinu voru liður í alþjóðavæðingu og áhættudreifingu Straums. Straumur keypti helmingshlut í Wood & Company, leiðandi fjárfestingarbanki í Mið- og Austur-Evrópu í júní 2007 og yfirtók finnska bankann eQ í júlí sama ár. 29. ágúst 2007 fékk Straumur viðskiptabankaleyfi á Íslandi.