Aðrar leiðir en þjóðnýting Glitnis

Þjóðnýting Glitnis var óvenjuleg „lausn“ á þeim vanda sem steðjaði að bankanum í lok september 2008. Hún reyndist afdrifaríkari og neikvæðari en ætlunin var. Glitnir átti ekki við bersýnilegan eiginfjárvanda að stríða, heldur vantaði hann lausafé. Flestar aðrar ríkisstjórnir hafa beitt öðrum aðferðum við það að aðstoða banka í svipaðri stöðu – a.m.k. er ekki gripið til þjóðnýtingar fyrr en allar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar.

  1. Fyrst er reynt að styðja við lausafjárstöðu viðkomandi banka, með lánveitingum Seðlabanka gegn tryggingu.
  2. Síðan er gripið til trygginga á skuldbindingum bankans, svo sem innlánum og skuldabréfum.

Lausafjáraðstoð fer venjulega ekki fram í gegnum eiginfjárframlag, enda er forðast í lengstu lög að hið opinbera, og þar með skattgreiðendur, verði hluthafi í fjármálafyrirtækjum.

Ef eiginfjárstuðningur er talinn nauðsynlegur er oftast fyrst reynt að veita hann í gegnum víkjandi skuldabréf, frekar en hlutafjárframlag, sem fæli í sér að hið opinbera tæki ekki á sig beina ábyrgð á öllum skuldbindingum viðkomandi bankastofnunar. Dæmi um þetta eru viðbrögð dönsku og írsku ríkisstjórnanna, en dönsk ríkisaðstoð við bankastofnanir fer alltaf fram í gegnum víkjandi lán. Írar reyndu sömuleiðis að endurfjármagna Allied Irish Banks og Bank of Ireland með víkjandi láni.

Fall Glitnis gerbreytti forsendum í fjármögnun Landsbankans

Við þessa skyndilegu þjóðnýtingu Glitnis 28. september 2008 gerbreyttust allar forsendur í fjármögnun Landsbanka Íslands. Íslensk skuldabréf, sem bankinn hafði lagt fram í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Evrópu (ECB) og áttu ekki að þurfa að vera endurnýjuð fyrr en 1. febrúar 2009 samkvæmt reglum bankans, lutu skyndilega óvæntum takmörkunum.

Seint á föstudeginum 3. október tilkynnti ECB að í stað þess að Landsbankinn gæti sótt 400 milljónir evra til viðbótar í endurhverfum viðskiptum í vikunni á eftir, eins og bankinn hafði gert ráð fyrir í áætlunum sínum, þyrfti hann að draga úr endurhverfum lántökum upp á 400 milljónir evra.

Þessi ákvörðun evrópska seðlabankans jafngilti skyndilegu og óvæntu veðkalli, sem minnkaði lausafjárstöðu bankans um 800 milljónir evra mánudaginn 6. október.

Afleiðing lækkaðrar lánshæfiseinkunnar

Þetta veðkall var bein afleiðing af því að matsfyrirtæki höfðu lækkað lánshæfismat íslenska ríkisins og íslensku bankanna í kjölfar þjóðnýtingarinnar, auk þess sem íslenska krónan virtist vera í frjálsu falli.

Að mati Landsbankans hefði fremur verið við hæfi að vinna að víðtækari lausn á vanda íslenska bankakerfisins, með samruna og lausafjárstuðningi hins opinbera.



1.1     Þjóðnýting Glitnis þungur róður fyrir íslenskt fjármálalíf

Þegar Glitnir var þjóðnýttur þann 29. september fór af stað atburðarás sem markar djúp spor í sögu fjármálageirans á Íslandi. Lánshæfismatsfyrirtæki lækkuðu einkunnir sínar á öllum íslensku bönkunum, lánalínur voru dregnar til baka, krónan féll og erlendir aðilar hófu að selja frá sér íslenskar eignir þótt stöndugar væru. Fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi og erlendis náði nýjum hæðum.

Í kjölfarið voru gerðar ríkari kröfur til Landsbankans, m.a. um veð í endurhverfum viðskiptum. Er það var ljóst, sóttist Landsbankinn sjálfur eftir því að falla undir nýsamþykktan lagaramma um aðgerðir fjármálaeftirlits vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamörkuðum.