Enn segir af Icesave

Icesave hefur verið helsta umræðuefni fjölmiðla frá því að
dómur féll Íslandi í vil á mánudagsmorgun. Sjálfsagt á sú umræða eftir að lifa
töluvert lengur, enda hefur Icesave verið blásið upp og gert að risavaxinni
Grýlu og holdgervingi kreppunnar. En einmitt vegna þess hve margir spyrða
Icesave og kreppuna saman í huganum, þá er von til þess að farsæl niðurstaðan
auki bjartsýni og baráttuþrek.

Ég setti stuttan pistil hér á síðuna á mánudag og fagnaði endalokum Icesave. Þar benti ég á, eins og ég hef gert allt frá hausti 2008, að þrotabú Landsbankans mun standa undir öllum forgangskröfum í búið og meira til. Það er einstaklega sterk staða banka, sem féll við upphaf alþjóðlegrar fjármálakreppu. „Ég man ekki eftir banka sem fallið hefur í heiminum sem skilið hefur við með þessum hætti,“ sagði utanríkisráðherra. Þessi staðreynd, ótrúlega góðar heimtur Landsbankans sem sýna svart á hvítu hvernig rekstri hans var háttað, hefur horfið í skuggann af upphrópunum, nú sem endranær.

Pistillinn minn var endurbirtur af veffjölmiðlum og ég hef fengið ágæt viðbrögð við honum. Þá spjallaði ég við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Þar fór ég yfir hvernig umræðan um Icesave hefði farið gjörsamlega úr böndunum og að ásakanir um glæpsamlega hegðun hefði reynst Landsbankafólki þungbærar. Því fólki væri öllu mjög létt vegna þessarar niðurstöðu. Ég sagði að sjálfur hefði ég alltaf verið sannfærður um að nægar eignir væru í búi Landsbankans til að borga þessar kröfur. Þá benti ég líka á, að ríkið ætti nú þegar miklu meiri verðmæti í nýja Landsbankanum en næmi þeim rúmlega 120 milljörðum sem leggja þurfti til bankans þegar hann var stofnaður.

Í gær átti ég stutt spjall við sjónvarp Viðskiptablaðsins. Þar talaði ég á svipuðum nótum, sagði umræðuna hafa einkennst af yfirlýsingagleði og múgæsingu, þegar mikilvægt hefði verið að halda henni yfirvegaðri og benda á staðreyndir. Ég benti á að rannsóknir hefðu sýnt fram á að ekkert misjafnt, siðlaust eða ólöglegt hefði verið við nýtingu Icesave-fjármuna innan bankans.