Þinginu neitað um upplýsingar

Seðlabankinn hefur hafnað ósk formanna tveggja þingnefnda um að fá útskrift af símtali fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi Seðlabankastjóra. Í símtalinu ræddu þeir um 80 milljarða króna lán (500 milljón evrur)  til Kaupþings sama dag og neyðarlögin voru sett, 6. október 2008. Aldrei hefur verið skýrt hvers vegna sú undarlega ákvörðun var tekin. Engin formleg samþykkt bankaráðs Seðlabankans lá fyrir og enginn lánasamningur var útbúinn. Getur staðist að þessi ákvörðun, sem kostaði ríkissjóð tugi milljarða króna, verði aldrei skýrð? Hvað er hægt að kalla slíka stjórnsýslu? Á meðan rannsóknarnefnd Alþingis birtir upplýsingar um fjármál einstaklinga ríkir þagnarskylda um hvernig stjórnvöld tala sig niður á ákvarðanir sem varða þjóðarhag. Er ekki allt í lagi? Ég bara spyr.


 

Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, ritaði í blaðagrein á dögunum um þetta lán til Kaupþings og tvö minni lán til bankans um svipað leyti, alls um 600 milljónir evra. Hann ritaði að sviptingarnar haustið 2008 hefðu kipptu fótunum undan fjármögnun gjaldeyrisforða Seðlabankans. „Þegar í lok september, nokkrum dögum fyrir hrun bankakerfisins og fyrrnefnda lánveitingu til Kaupþings, var orðið ljóst að í óefni stefndi. Gjaldeyrisforðinn var kominn niður í 825 milljónir evra og lánin þrjú til Kaupþings því rétt rúm 72% hreins forða.“ Ekki þarf að undra að grein Gylfa bar yfirskriftina „Lánað úr litlum forða“.

Þagnarskylda Seðlabanka

Vísir og Stöð 2 greindu í gær frá svarbréfi Seðlabankans til formanns fjárlaganefndar og formanns efnahags- og viðskiptanefndar.  Helstu rök Seðlabankans fyrir að neita að upplýsa þingið eru að þagnarskylda ríki um þessar upplýsingar. Frá þeirri þagnarskyldu verði ekki vikið nema samkvæmt skýru lagaboði eða ef dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu.

Raunar kemur einnig fram í bréfinu, að Seðlabankinn telur fyrirspurn þingnefndanna ekki nægilega ítarlega og afmarkaða til að hægt sé að svara henni. Stöð 2 hafði eftir formanni efnahags- og viðskiptanefndar að bréfi Seðlabankans yrði svarað, en formaður tjáði sig ekki að öðru leyti um málið.

Því verður seint trúað að þingmenn, kjörnir fulltrúar almennings, sætti sig við að fá ekki upplýsingar um hvaða forsendur lágu að baki þegar tugmilljarða gjaldeyrisforða var veitt til Kaupþings.