Rannsóknarnefndin enn að störfum?

Fyrir mánuði sendi ég bréf til forseta Alþingis og nefndarmanna í rannsóknarnefnd Alþingis. Í bréfinu óska ég svara um störf rannsóknarnefndarinnar frá apríl 2010. Áður hafði ég raunar staðið í þeirri trú að nefndin hefði látið af störfum í þeim mánuði, um leið og skýrsla hennar kom út. Hins vegar hafa mér þrívegis borist upplýsingar sem benda til þess að nefndin hafi veitt fyrirspyrjendum nánari skýringar á skýrslu sinni. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni en um leið er eðlileg krafa að skýrsluhöfundar taki tillit til þeirra athugasemda sem komið hafa fram, til dæmis hér á vefsíðu minni. Þá ítreka ég þá ósk mína að athugasemdir mínar verði birtar á vef Alþingis, þar sem rannsóknarskýrsluna sjálfa er að finna.

 

Bréf mitt til rannsóknarnefndarinnar og forseta Alþingis er hér. Í stuttu máli sá ég mig knúinn til að rita bréf til þriggja nefndarmanna rannsóknarnefndarinnar og forseta Alþingis eftir að hafa þrívegis fengið þær upplýsingar að nefndin hefði skýrt niðurstöður sína og útreikninga fyrir blaðamönnum sem til hennar leituðu.

Fyrsta dæmið var í janúar í fyrra, þegar fram kom í úrskurði siðanefndar Blaðamannafélags Íslands að Sigrún Davíðsdóttir pistlahöfundur RÚV hefði leitað eftir og fengið skýringar höfunda rannsóknarskýrslunnar á því hver væri réttur skilningur á tilteknu efni skýrslunnar – og fékk þá raunar staðfest að hún hefði farið rangt með. Næsta dæmi skaut upp kollinum í október sl., eftir að ég hafði gert athugasemd við skrif um mig í breska dagblaðinu Observer. Breska blaðið staðhæfði þá að rannsóknarnefndin hefði staðfest þá útreikninga, sem stuðst var við í grein blaðsins. Höfundar greinarinnar voru blaðamennirnir Simon Bowers og áðurnefnd Sigrún Davíðsdóttir. Þriðja dæmið barst í öðru bréfi frá Observer, þar sem samskipti rannsóknarnefndarinnar og breska dagblaðsins voru ítrekuð.

Þar sem rannsóknarnefndin virðist þannig enn vera að störfum við skýringar á skýrslu sinni tel ég sjálfgefið að nefndin taki jafnframt tillit til þeirra athugasemda og leiðréttinga, sem komið hafa fram við þá sömu skýrslu. Þá óskaði ég upplýsinga um hversu ítarlega rannsóknarnefndin hefði svarað fyrirspurnum, hvort hún hefði þurft að ráðast í frekari rannsóknarvinnu til að svara þeim, hvort hún hefði vísað fyrirspyrjendum á aðrar skýringar en sínar eigin, hvort ákveðið hefði verið hversu lengi enn nefndin myndi svara fyrirspurnum um efni skýrslunnar og hvort þær nánari skýringar yrðu birtar á vef Alþingis, öðrum til glöggvunar.

Ég hef ekki fengið svör frá rannsóknarnefndinni eða forseta Alþingis en býst við þeim fljótlega.