Var aldrei aðvaraður

DV er drjúgt með sig sl. föstudag þegar það segist hafa undir höndum bréfasamskipti Landsbankans og Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu. Í umræddum bréfum kemur fram að FME taldi að flokka ætti mig og Actavis sem tengda aðila í Landsbankanum, en jafnframt að bankinn var þessu mati ekki sammála. FME gaf bankanum frest til að skýra sín mál, en eftir að félög á mínum vegum tóku Actavis yfir haustið 2007 lék enginn vafi á flokkun áhættu og málið féll niður. Vegna furðulegrar fyrirsagnar blaðsins á þá leið að ég hafi verið aðvaraður er rétt að taka fram að FME hafði aldrei samband við mig vegna þessa máls.

Þeir sem ekki þekkja til mála eiga eflaust að túlka þetta svo, að þarna hafi DV komist yfir einhver leynigögn, sem blaðið sé nú að upplýsa um. Staðreyndin er sú, að ítarlega var fjallað um þessi mál í rannsóknarskýrslu Alþingis, sem kom út fyrir 11 mánuðum, og fréttir hafa verið sagðar af þessum ágreiningi bankans og FME fyrir löngu, þær fyrstu daginn sem skýrslan kom út.

DV skellir þessari gömlu umfjöllun fram með látum, undir fyrirsögninni „Aðvaraði Björgólf frá því í mars 2007“. Þetta veit blaðið að er rangt. Fjármálaeftirlitið hafði ekki samband við mig vegna flokkunar áhættu í Landsbankanum, heldur við bankann sjálfan, eins og skýrt kemur fram í rannsóknarskýrslunni.

Þeir sem vilja kynna sér gang þessa gamla máls nánar ættu að lesa 5. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í 16. kafla segir m.a. um þessi ágreiningsmál bankans og Fjármálaeftirlitsins:

„Hinn 29. mars 2007 var haldinn fundur forsvarsmanna Fjármálaeftirlitsins og stjórnenda Landsbankans. Þar samþykkti Fjármálaeftirlitið að í skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar sem skila átti og miðaðist við 31. mars 2007 þyrfti bankinn ekki að tengja Björgólf Thor og Actavis saman. Af minnisblaði Fjármálaeftirlitsins um fundinn má ráða að um frest hafi verið að ræða en ekki afstöðubreytingu, tengja bæri þessa aðila saman frá og með skilum næstu skýrslu sem miðaðist við 30. júní 2007. Hinn 30. apríl 2007 barst svar Landsbankans um að niðurstöður Fjármálaeftirlitsins hefðu verið kynntar stjórn bankans. Jafnframt færði bankinn enn fram rök fyrir því að halda bæri áhættuskuldbindingum Björgólfs Thors Björgólfssonar og Actavis Group hf. aðskildum í skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar. Í skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar sem Landsbankinn skilaði Fjármálaeftirlitinu og miðaðist við 30. júní 2007 var Björgólfur Thor enn ekki tengdur við Actavis. Í þeirri skýrslu nemur áhættuskuldbinding Actavis 21,8% af lögbundnu eigin fé en skuldbinding Björgólfs Thors nemur 11,8%. Af gögnum máls 2005040012 verður ekki séð að frekari framvinda hafi orðið í málinu fyrr en það var fellt niður um haustið eftir að Björgólfur Thor yfirtók Actavis að fullu og félagið var afskráð.“

Loks er rétt að rifja upp, að við yfirtöku félaga minna á Actavis síðsumars 2007 voru lán hjá Landsbanka greidd upp og bankinn hagnaðist verulega af hlut sínum í fyrirtækinu. Hluta þess hagnaðar lagði bankinn aftur inn í félagið. Þá hefur verið samið um uppgjör þeirra lána, sem Actavis skuldaði Landsbankanum við fall bankans.

Þrátt fyrir að DV hafi ranglega fullyrt í fyrirsögn að ég hafi verið aðvaraður af Fjármálaeftirlitinu neitaði blaðið kröfu talsmanns míns um að breyta fyrirsögninni. Blaðið fylgir fyrri stefnu sinni, að hafa það sem betur hljómar, en ekki það sem sannara reynist.