Var að reyna að bjarga bankanum og breyta

Oft hef ég orðið var við misskilning og vanþekkingu í eftiráumræðunni um atburðarásina síðustu dagana fyrir hrun íslenska bankakerfisins og þá m.a. í tengslum við hvert hlutverk mitt var og hvað ég var að reyna að gera. Eins og ég hef áður bent á þá virðist þáverandi fjármálaráðherra ekki hafa skilið þær hugmyndir sem við kynntum og þá hef ég einnig bent á að frásögn í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis af atburðarásinni er afar ófullnægjandi og gefur því möguleika á ótal röngum ályktunum. Í ágætri bók sinni „Why Iceland?“ fjallar Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og fyrrum forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings á sanngjarnan hátt og af þekkingu um það sem ég var að reyna að gera en hann segir að í aðdragandanum hafi ég verið að reyna að bjarga Landsbankanum og breyta honum.

 

Í kaflinum „Downfall“ í bókinni „Why Iceland?“ fjallar höfundurinn, Ásgeir Jónsson, um lausafjárstöðu íslensku bankanna. Þar fjallar hann um að fyrirtæki tengd eigendum Landsbankans hafi verið í vandræðum og lán bankans til þeirra voru í uppnámi. Síðan segir:

„Primary owner Thor Björgólfsson was actively trying to shield and restructure the bank. When XL Leisure, a British travel group, collapsed on September 12 with a potential loss of EUR 207 million, Björgólfsson gave Landsbanki að personal guarantee for the loss. Also the owner of controlling share of Straumur-Burdarás (STRB), an Icelandic investment bank with a 25 percent equity ratio and its own large balance sheet, he considered a merger of the two banks, which could deliver equity to Landsbanki and funding to STRB. But pari passu covenants complicated this maneuver as well. Landsbanki ended up selling most of its foreign subsidiaries to STRB on September 30 to free up capital; led by William Fall, an experienced British banker, STRB outlived Landsbanki by six months.“ (bls. 163)

Þarna bendir höfundurinn á að ég gekk í ábyrgðir á lánum Landsbankans til XL Leisure þegar stefndi í að þau féllu á Landsbankann. Var það gert til að skýla bankanum en ekki af einhverjum öðrum hvötum eða ástæðum eins og skilja má af sumum fréttum og af lestri rannsóknarskýrslu Alþingis[1] og áður hefur verið bent á. Þá bendir Ásgeir einnig á að tilraunir mínar til að stuðla að sameiningu Landsbankans og Straums höfðu það að markmiði að nýta eiginfjárstyrk Straums og lausafjárstyrk Landsbankans til að búa til banka sem gæti staðið af sér mestu fjármálakreppu allra tíma. Eins og ég hef bent á áður þá virðist þáverandi fjármálaráðherra ekki hafa skilið þessar hugmyndir ef marka má bók hans um hrunið. Athygli vekur að bók Ásgeirs kom út hálfu ári á undan bók fjármálaráðherrans og hefði ráðherrann fyrrverandi gefið sér tóm til að kynna sér efni hennar hefði það mögulega getað aukið skilning hans á viðfangsefninu.

 [1] Í athugasemdum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir: „Hér fer skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis með rangt mál. Í fyrsta lagi þegar í skýrslunni segir að Landsbankinn hafi veitt Samson lán vegna gjaldþrots XL Leisure Group er mikilvægt að fram komi að ekki var um nýja lánaskuldbindingu bankans að ræða. Hún var til staðar í bankanum. Lánið var upphaflega til félags sem var á þeim tíma óviðkomandi eigendum Samsonar. Vegna gjaldþrots XL Leisure Group stefndi í að þessi gamla lánaskuldbinding félli á Eimskip með alvarlegum afleiðingum fyrir félagið og síðan Landsbankann vegna mikilla skulda þess félags í bankanum. Samson ábyrgðist þessar skuldbindingar sem annars hefðu lent á Eimskip og síðan á bankanum og þá um leið á öllum hluthöfum hans. Hið sanna er að staða Landsbankans styrktist við þessa ábyrgð. Það er því rangt að tala um lán til Samsonar. Hagsmunir Landsbankans voru hafðir í fyrirrúmi í þessum viðskiptum. Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson tóku mikla persónulega áhættu umfram aðra hluthafa Landsbankans, þótt allir hluthafar nytu góðs af. Ekki er ljóst af hverju rannsóknarnefnd Alþingis fer hér með rangt mál og snýr á hvolf því allar upplýsingar um þetta mál hafa lengi legið fyrir.“