Observer birtir athugasemd

Breska blaðið Observer hefur birt athugasemd frá mér á vefsíðu sinni, í kjölfar greinar sem blaðið birti í lok ágúst sl. og var uppfull af ósannindum og hálfsannleika. Áður hafði greininni raunar verið breytt á vefsíðunni, eftir að Observer viðurkenndi að hafa farið offari í útreikningum sínum.

Greinin frá 28. ágúst sl. er rituð af blaðamönnunum Simon Bowers og Sigrúnu Davíðsdóttur. Strax eftir birtingu greinarinnar leitaði ég til lögmannsstofu til að leggja fram athugasemdir við vinnubrögð höfunda greinarinnar, eins og fram kom hér á vefsíðu minni. Skemmst er frá því að segja, að veigamiklu atriði í frásögn dagblaðsins var breytt á vefnum fljótlega eftir að ég gerði fyrstu athugasemdir.

Nú hefur blaðið fallist á að birta ítarlegri athugasemd frá mér. Þar skiptir mestu máli að ég fékk færi á að leiðrétta nánar fullyrðingar blaðsins um áhættulánveitingar Landsbankans til mín. Observer nýtti upplýsingar úr Rannsóknarskýrslunni til að slá því fram að slíkar lánveitingar til mín og tengdra félaga hefðu numið rúmlega 37% af eiginfjárgrunni bankans. Raunar fullyrti blaðið í fyrstu útgáfu sinni, á vefnum og á prenti, að þessi tala næmi 70% og beitti þá þeirri frumlegu og fordæmalausu aðferð að miða við eigið fé bankans, en ekki eiginfjárgrunn. Með athugasemd minni núna fékk ég loksins tækifæri til að benda lesendum blaðsins á, að í útreikningunum eru dregin fram öll þau félög þar sem ég átti einhvern hlut í, hversu lítill sem sá hlutur var, en um leið eru allar skuldir þeirra félaga taldar sem skuldbinding mín. Ég er sem sagt talinn 100% ábyrgur fyrir öllum lánum félaga sem ég átti örfá prósent í. Auðvitað var það ekki svo.

Þá fagna ég því að hafa fengið tækifæri til að staðfesta skuldauppgjör mitt við lesendur breska blaðsins, en í greininni var dregið í efa að slíkt skuldauppgjör hefði í raun farið fram.