Kastljósi beint að svörum

Kastljós sendi nokkrar spurningar til mín í gær, vegna umfjöllunar um gamla skýrslu. Skýrslan var unnin af fyrirtækinu Kroll að beiðni Barr Pharmaceuticals árið 2006, en þá börðust Barr og Actavis um lyfjafyrirtækið Pliva. Barr leitaði allra leiða til að fá fjárfestingarsjóði til liðs við sig, fremur en Actavis, og liður í því var samantekt á orðrómi og dylgjum, sem slúðrað hafði verið um í tengslum við bjórverksmiðju okkar félaga í Pétursborg. Þar er skautað léttilega framhjá sannleikanum, því ég hef aldrei tengst þeim mönnum sem Kroll og Kastljós ætla að hafi verið viðskiptafélagar okkar feðga þar eystra.

 

Hér fyrir neðan eru spurningar Kastljóssins og svör mín við þeim. Þrátt fyrir að þau hafi verið afdráttarlaus kom það ekki í veg fyrir að Kastljósið beindist nær eingöngu að dylgjum skýrslunnar, en svör mín voru í skugganum.

  • Eftir því sem við komumst næst hefur Björgólfur Thor aldrei viljað segja neitt til um hverjir hafi verið meðeigendur þeirra feðga og MÞ að bjórverksmiðjunni Bravo, nema ef undanskilinn er hlutur bandarísks fjárfestingafélags. Hverjir voru þessir meðeigendur?

Svar: Þessir meðeigendur í einkafyrirtækinu Bravo voru helstu stjórnendur verksmiðjunnar og nokkrir fjárfestingarsjóðir.

  • Var Jeffrey Galmond einn þessara hluthafa eða fjárfesta í Bravo?

Svar: Nei

  • Hvernig hefur viðskiptum Björgólfs Thors við Jeffrey Galmond verið háttað? Það er að segja hvenær hófst samstarf þeirra og hvert var hlutverk Galmonds? Er það rétt sem fram kemur í bók Ingimars Ingimarssonar að Galmond hafi verið lögfræðilegur ráðgjafi Björgólfs og eða föður hans í málaferlum gegn Ingimar og félagi hans?

Svar: Þeir hafa ekki átt í neinum viðskiptum af nokkru tagi. Tveir danskir lögfræðingar á sömu lögfræðistofu og Galmond, Sune Skadegaard Thorsen og Claus Abildstrøm, störfuðu um tíma fyrir Björgólf Thor og viðskiptafélaga hans á árum áður, en aldrei Galmond sjálfur.  

  • Hefur Björgólfur stundað viðskipti með Galmond?

Svar: Nei, aldrei.

  • Hafa leiðir Björgólfs og Leonid Reiman legið saman í viðskiptum á einhverjum tímapunkti? Þá hvenær og með hvaða hætti?

Svar: Nei, aldrei. Björgólfur Thor hefur aldrei hitt manninn.

  • Aðstoðaði Leonid Reiman, eða Jeffrey Galmond, Björgólf Thor á einhvern hátt við að afla sér viðskiptasambanda í Austur-Evrópu?

 Svar: Nei, eins og sjá má af fyrri svörum hafa leiðir þeirra aldrei legið saman á nokkurn hátt.

  • Hvert var raunverulegt söluverðmæti Bravo-verksmiðjunnar til Heineken? Hér er spurt vegna þess að misvísandi upplýsingum hefur verið haldið á lofti um kaupverðið, það ýmist sagt 350 eða 400 milljónir dollara. Hve stór hluti kaupverðsins rann til þremenninganna, BTB, BG og MÞ?

Svar: Söluverðið á þessu einkafyrirtæki og hve stóran hlut hver og einn bar frá borði er einkamál. Það hefur hins vegar margoft komið fram í fjölmiðlum að endanlegt söluverð var háð ákveðnum skilmálum, sem skýrir þessar mismunandi tölur sem settar hafa verið fram.

Þá barst ein spurning til viðbótar, svohljóðandi:

  • Er Björgólfur fáanlegur til að gefa upp nöfn þessara fjárfestingasjóða, sem áttu hluti í Bravo, eins nöfn þessara stjórnenda?

Svar: Nei, hann sér enga ástæðu til að fjölyrða um mál sem snerta hag annarra eigenda í þessu einkafyrirtæki.