Hverju var logið? Byggði ráðherra mat sitt á einhliða upplýsingum Kaupþingsmanna?

Fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen heldur því fram að ég hafi logið. Ekki er
að sjá á vitnisburðinum hverju ég á að hafa logið og þá ekki að hverjum nema
„hinum“. Í bókinni, Árni Matt – frá bankahruni til byltingar, sem kom út
haustið 2010 er ekki heldur að finna upplýsingar um hverju ég átti að ljúga.
Hins vegar kemur þar fram að ráðherra átti að því er virðist í trúnaðarsambandi
við Kaupþingsmenn. Hann mótar afstöðu sína til málefna Landsbankans á
upplýsingum frá þeim og síðan virðist hann gera þeirra viðhorf til mín að
sínum. Ráðherra virðist byggja viðhorf sín til mín á upplýsingum frá
Kaupþingsmönnum. Rétt er að minna á að stjórnvöld veittu Kaupþing 500 milljón
evru lánafyrirgreiðslu þann 6. október sem Landsbankinn fékk ekki. Rannsóknarnefnd
Alþingis lætur í léttu rúmi liggja að leita eftir minni hlið mála til að rækja
það verkefni sitt að leita sannleikans en hikar hins vegar ekki við að birta
samhengislaus og meiðandi ummæli um mig.

Í kafla 20.4 er fjallað um fall Landsbankans. Í almennum upphafskafla 20.4.1. segir á bls. 144.

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Árni M. Mathiesen um minnisblöð sín af fundum með bankamönnum þessa helgi (4-5 október) „Þessir hérna punktar hérna hjá mér, þetta eru lýsingar á fundum þar sem að bankamenn voru að ljúga að okkur.“ Árni segir: „Og verstur var Björgólfur [Thor Björgólfsson] […] og hann var að ljúga að hinum líka og þeir komu svo bara um kvöldið og sögðu: Það er ekkert að marka það sem þessi maður segir. Þeir voru að reyna að finna leið til að sameina Kaupþing og Landsbankann til þess að þeir gætu staðið þetta og Björgólfur sagði bara: Við reddum þessu og við reddum þessu.“

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Þessi frásögn í rannsóknarskýslu Alþingis kemur Björgólfi Thor gjörsamlega á óvart. Að hverjum átti Björgólfur Thor að ljúga? Um hvað? Hvenær sagðist hann ætla að redda einhverju við ráðherra? Fyrir hverja?  Hvaða „þeir“ sögðu þetta við ráðherrann? Rannsóknarnefndin sér ekki ástæðu til að rannsaka þá atburðarás til hlítar sem hún kýs að gera hér að umfjöllunarefni. Þetta eru samhengislausar tilvitnanir sem minna frekar á kaffihúsaspjall góðkunningja en rannsóknarvinnu ábyrgra aðila. Til að varpa ljósi á það sem rannsóknarnefndinni var ætlað að gera er rétt að eftirfarandi komi fram:

Í fyrsta lagi telur Björgólfur Thor að umræður hafi ekki snúist einvörðungu um að sameina Landsbankann og Kaupþing því í hans huga var einnig á borðinu sameining Straums við bankana tvo auk sameiginlegrar yfirtöku á eignum Glitnis. Straumur hafði sterka eiginfjárstöðu – var með álíka mikið eigið fé og Glitnir, sem gat komið sameiginlegum banka að góðum notum. Áður en stjórnvöld tóku yfir Glitni og áður en lánhæfismat ríkisins og allra bankanna lækkaði tveimur dögum síðar var eiginfjárstaða Straums afar sterk og nam eiginfjárhlutfall bankans í hálfsársuppgjöri 2008  25.4%. Á sama tíma var lausafjárstaða Landsbankans talin sterk vegna þess hve fjármögnun hans byggði mikið á almennum alþjóðlegum innlánum en ekki á heildsölulánum á fjármálamörkuðum sem þá voru  botnfrosnir. Við lítið breyttar aðstæður var Landsbankinn að fullu fjármagnaður fram eftir árinu 2010.  Eiginfjárhlutfall bankans var hins vegar veikt. Því var sameining Landsbankans og Straums talin ákjósanleg og í raun forsenda þess að þessir bankar gætu tekið þátt í frekari umbreytingum á íslenskum fjármálamarkaði. Sameinaður banki hefði samkvæmt því sem við blasti þá tiltölulega örugga fjármögnun og með eiginfjárhlutfall um 12,6% í samanburði við 10,3% eiginfjárhlutfall Landsbankans.

 

  Straumur LÍ + Straumur
Vegnar eignir* 3.098.125 ISK million** 547.724 ISK million 3.645.849 ISK million
Tier I – eigið fé 252.507 ISK million 126.820 ISK million 379.327 ISK million
Tier I – eiginfjárhlutfall 8,2% 23,2% 10,4%
Tier II – eigið fé 319.600 ISK million 139.122 ISK million 458.722 ISK million
Eiginfjárhlutfall 10,3% 25,4% 12,6%

*Eignir á sk. áhættugrunni.         **Tölur miðast við hálfsársuppgjör frá miðju ári 2008 hjá LÍ og Straumi. EUR/ISK 124,38

Þegar Björgólfur Thor talaði um að til væri eigið fé er hann að vísa til þessa möguleika. Ekki er að sjá að stjórnvöld hafi skilið að fullu hvað var til umræðu og ekki var vart vilja þeirra til að kanna til fullnustu hvaða tækifæri buðust.

Í öðru lagi sat Björgólfur Thor tvo fundi með Árna M. Mathiesen þann 5. október en engan þann fjórða. Á fyrri fundinum sem haldinn var í Ráðherrabústaðnum að morgni sunnudagsins 5. október mættu bankastjórar Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Árnason ásamt Björgólfi Thor – sem var í senn fulltrúi eigenda Landsbankans og formaður stjórnar Straums, til fundar með ráðherrunum Geir H. Haarde, Össuri Skarphéðinssyni, Árna Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni, efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, Tryggva Þór Herbertssyni, formanni stjórnar FME, Jóni Sigurðssyni og ráðuneytisstjórum forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneytis, Bolla Þór Bollasyni, Baldri Guðlaugssyni og Jónínu Lárusdóttur. Á síðari fundinum sem haldinn var undir kvöld eða um kl. 17 sátu allir sömu aðilar frá hálfu hins opinbera en auk Björgólfs Thors, Halldórs og Sigurjóns sátu þá einnig stjórnarformaður Kaupþings, Sigurður Einarsson og forstjóri sama banka Hreiðar Már Sigurðsson og Yngvi Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans.

Í þriðja lagi er rétt að taka fram að á fyrri fundinum gerðu bankastjórar Landsbankans grein fyrir lausafjárstöðu bankans sem var erfið.  Seðlabanki Evrópu gerði á föstudagskvöldi kröfu um að minnka stöðu endurhverfra viðskipta um 400 milljónir evra en fram að því  var búist við að bankinn myndi auka þær á mánudeginum um 400 milljónir evra og því var viðsnúningurinn um 800 milljónir evra. Að auki hafði FSA í Bretlandi gert kröfu um hækkun lausafjártryggingar um 400 milljónir punda vegna þess að óróinn sem fylgdi yfirtöku ríkisins á Glitni var farinn að hafa áhrif á Icesave innlánsreikningana í Bretlandi. Fram kom á fundinum að verið væri að ræða við bæði FSA og Seðlabanka Evrópu um úrlausnir auk þess sem Landsbankinn væri einnig að kanna aðrar leiðir og hefði m.a. óskað eftir fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands. Björgólfur Thor viðurkennir fúslega að hafa verið bjartsýnn og sæmilega vongóður um finna mætti lausnir og hann útilokar ekki að hann hafi sagt setningu á borð við „við reddum þessu“. Hann vísar því á bug að hann hafi verið að reyna að blekkja menn eða að ljúga. Hann var á þessari stundu mjög lítið inn í rekstrarmálum Landsbankans og þekkti í raun ekki alla eðlisþætti þess vanda sem við var að etja –  en það gerðu hins vegar bankastjórarnir tveir sem einnig sátu fundinn. Eftir lestur bókarinnar, Árni Matt – frá bankahruni til byltingar, sem kom út haustið 2010, er ljóst að fjármálaráðherra var í nánu sambandi við Kaupþingsmenn og þessi vitnisburður hans fyrir rannsóknarnefndinni um að Björgólfur Thor hafi sagst ætla að redda einhverju er vísun í samtal Björgólfs Thors við Kaupþingsmenn sem þeir hafa sagt ráðherra og hann gerir gagnrýnislaust að sínum.

Í fjórða lagi er rétt að benda á að rannsóknarnefnd Alþingis birtir vitnisburð ráðherra, Árna M. Mathiesen, þar sem hann hefur eftir ónafngreindum „öðrum bankamönnum“ að Björgólfur Thor hafi verið að ljúga að þeim og þeir sagt að ekkert væri að marka hann. Þetta er að sjálfsögðu söguburður og er rétt að taka fram að væntanlega eru bankamennirnir sem ráðherra treystir og teflir fram í sínum vitnisburði Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson. Í bók sinni, Árni Matt – frá bankahruni til byltingar, kemur skýrt fram að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra átti fundi með Kaupþingsmönnum dagana 4. og 5. október sem Landbankamönnum var ekki kunnugt um og þar kemur einnig fram að upplýsingar sem Kaupþingsmenn veittu ráðherra um Landsbankann mótuðu viðhorf hans. Hann sá ekki ástæðu til að staðreyna upplýsingar Kaupþingsmanna – hann treysti þeim þó svo hann tali jafnframt um að bankamenn hefðu vantreyst hvorir öðrum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa þeir báðir, Sigurður og Hreiðar Már,réttarstöðu grunaðra í flóknu, margþættu og yfirgripsmiklu kærumáli er varðar markaðsmisnotkun og fölsun gagna, auk þess sem þeir hafa verið uppvísir að því að upplýsa ekki íslensk yfirvöld um mikilvæg atriði í samskiptum þeirra við bresk fjármálayfirvöld í aðdraganda þess að Bretar ákváðu að beita ákvæðum laga um hryðjuverk til að ná fram vilja sínum gagnvart íslenskum aðilum.

Í fimmta lagi er mikilvægt að hafa í huga að á sunnudeginum voru flestir trúaðir á að Kaupþing stæði þokkalega að vígi. Einn maður var annarar skoðunar og það var Sigurjón Árnason. Hann treysti ekki Kaupþingsmönnum eins og hann vitnar um sjálfur hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Hann hélt því alltaf fram að Kaupþing fegraði með margskonar aðferðum raunverulega stöðu sína og því væru Kaupþingsmenn í raun að ljúga um eigin styrk. Hann vissi að þeir stóðu illa og höfðu tekið gríðarlega stöðu gegn íslensku krónunni. Hann sagði við Björgólf Thor og Halldór Kristjánsson að Kaupþing væri ekki eins öflugur og stjórnendur héldu fram og gaf í skyn að ekki væri allt sannleikanum samkvæmt í bókum þeirra. Hann vildi ekki starfa með Kaupþingsmönnum og lýsti margsinnis þeirri skoðun sinni, þegar hugmyndir Kaupþingsmanna rétt fyrir hrun voru ræddar, að þeir væru „brjálaðir“.  Hann var því alltaf efins um að rétt væri að rugla saman reitum við Kaupþing og hafði ekki trú á sameiningu við þá. Björgólfi Thor fannst á þessum tíma þetta vafasamar fullyrðingar og taldi eðlilegt að málin yrðu könnuð frekar og skýrir það muninn á þeim áherslum sem Sigurjón og Björgólfur Thor höfðu. Það var ekki fyrr en síðar sem menn áttuðu sig á raunverulegri stöðu Kaupþings á þessum tíma. Þá hafði 500 milljón evra lán verið veitt frá Seðlabanka til Kaupþings án þess að það yrði bankanum til bjargar. Vandi bankans var mun meiri eins og síðar kom í ljós – bankinn hafði m.a. fjármagnað kaup á um 60% af hlutafé í bankanum og falið bandarísk undirmálslán. Lánveiting seðlabankans til Kaupþings staðfestir hins vegar þá trú sem stjórnvöld virtust hafa á Kaupþingi og fullyrðingum Kaupþingsmanna á þessum tíma.

Af þessu má ráða að rannsóknarnefnd Alþingis lætur í léttu rúmi liggja að kanna atburðarás til hlítar en hikar ekki við að birta samhengislaus og meiðandi ummæli um einstaklinga sem nefndin telur síðan ekki ástæðu til að ræða við.