Hæfileikaríkir heimamenn

Í bókinni „Why Iceland?“ heldur fyrrum yfirmaður greiningadeildar Kaupþings, Ásgeir Jónsson, því fram að Kaupþing hafi reitt sig meira á hæfileikaríka heimamenn í erlendum fyrirtækjum sínum en Landsbankinn. Án þess að leggja mat á þá fullyrðing er rétt að benda á að öll dótturfélög Landsbankans lutu forystu heimamanna en umtalaðasta dótturfélag Kaupþings, Singer & Friedlander í London, var stýrt af Íslendingi. Næstu vikurnar verða færðar til bókar hér á þessum vef fáeinar athugasemdir við annars ágæta bók hagfræðingsins Ásgeirs Jónssonar.

 

Bókin „Why Iceland?“ eftir yfirmann greiningadeildar Kaupþings síðustu árin fram að hruni, Ásgeir Jónsson, greinir frá risi og falli íslensku bankanna. Bókin ber merki þess að vera skrifuð fljótlega eftir hrun en hún kemur út árið 2009 – áður en t.d. skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt í apríl 2010. Þá ber bókin einnig merki þess að höfundur var starfsmaður Kaupþing og að á ritunartíma hennar bærðust í brjósti hans  hlýjar tilfinningar til síns gamla vinnustaðar, a.m.k. hlýrri en til annarra banka á Íslandi.  Á næstu vikum munu birtast hér á þessari vefsíðu fáeinar athugasemdir við það sem kemur fram í þessari ágætu bók. Flestar þessara athugasemda eru léttvægar en engu að síður finnst mér rétt að færa þær til bókar – rétt skal vera rétt.

Ásgeir Jónsson segir að Kaupþing hafi haft frumkvæðið að hinni svokölluðu útrás og að Landsbankinn hafi fylgt í fótspor hans.  Síðan segir hann: „However, the greates difference between the two banks was that Kaupthing‘s operation abroad relied almost solely on local talents in each market.“ (bls. 52) Hann heldur því sumsé fram að Kaupþing hafi fremur en Landsbankinn byggt erlenda starfsemi sína á hæfileikaríkum heimamönnum. Án þess að leggja mat á þessa fullyrðingu höfundar er rétt að fram komi að öll stærstu dótturfélög Landsbankans lutu alla tíð forystu heimamanna. Í Bretlandi voru það Heritable Bank og verðbréfafyrirtækið Teather&Greenwood, á Írlandi var það verðbréfafyrirtækið Merrion Capital og á meginlandi Evrópu starfaði fyrirtækið Kepler Equity í fjölmörgum borgum. Öll þessi fyrirtæki lutu stjórn og forystu heimamanna sem í flestum tilfellum voru starfsmenn fyrirtækjanna þegar Landsbankinn tók þau yfir.  Í erlendum útibúum íslenska bankans voru hins vegar íslenskir starfsmenn, eins og t.d. í útibúinu í London. Hins vegar liggur það fyrir að í einu stærsta erlenda dótturfélagi Kaupþings, Singer & Friedlander, var forstjórinn Íslendingur sem eins og kunnugt er greindi frá reynslu sinni í athyglisverðri bók sem kom bæði út á ensku og íslensku.

Í þessu sambandi vil ég minna á það sem fram hefur komið hér á þessum vef um viðhorf mín til íslenskra stjórnenda bankanna og mikilvægi þess að fá til forystu einstaklinga með reynslu frá alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum líkt og tókst hjá Straumi.