Erindi í Kaupmannahöfn

Í gær hélt ég erindi á málþingi í Kaupmannahöfn á vegum danska viðskiptablaðsins Börsen og Norðurlanda í brennidepli. Auk mín héldu framsögu þeir Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank og Helgi Hjörvar, alþingismaður og formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis. Efni málsþingsins var hvaða lærdóm megi draga af kreppunni á Íslandi og hvernig verja megi banka- og fjármálageirann fyrir samsvarandi kreppum í framtíðinni.

 

Í erindinu kom ég víða við. Ég lagi útfrá því að auðvelt væri að vera vitur eftir á og flestir gætunú rakið hvers vegna alþjóðleg fjármálakreppa skall á haustið 2008, þótt fáir hafi séð hana fyrir. Á Íslandi jók það á vandann hversu stórt bankakerfið var í svo litlu hagkerfi, hversu lítill hópur stærstu viðskiptavina bankanna var í raun og hve lítið vægi erlend viðskiptavinir höfðu miðað við umsvif bankanna erlendis. Á sínum tíma gerði ég mér ekki grein fyrir hversu mjög vöxtur íslensku bankanna byggðist á miklu lánsfjárframboði á erlendum mörkuðum og hvernig falskt gengi krónunnar skekkti þá mynd sem við blasti. Þá voru ýmsir veikleikar í hinu alþjóðlega fjármálakerfi sem ekki blöstu við fyrr en um seinan, t.d. hvað varðar tryggingar innstæðueigenda.

Ég fór yfir þau atriði sem nú blasa við í baksýnisspeglinum og ég hefði átt að koma auga á. Ég hefði átt að sjá að ýmsar kennistærðir voru rangar. Auðsældin á Íslandi byggðist á röngum forsendum. Stjórnvöld héldu gengi krónunnar allt of háu, sem þýddi að verðlag var lægra en það hefði átt að vera í raun. Fjármagn var ódýrt, en það var blekking. Gamla fiskveiðiþjóðin stundaði ofveiðar á fjármagnsmörkuðum.  Þegar yfir lauk var fall krónunnar miklu þyngra högg fyrir samfélagið en fall bankanna. Þetta hefði ég átt að sjá, en ég var einn þeirra sem hreifst með. Þegar þessu samkvæmi lauk voru eftirköstin ægileg. Því miður hélt hjarðhegðunin hins vegar velli eftir hrun; allir hlupu í eina og sömu átt og hrópuðu sömu ásakanir.

Pólitísk sýking einkavæðingar

Einkavæðing bankanna árið 2002 var veikburða ferli og sýktist af pólitík. Það var röng ákvörðun að einkavæða báða ríkisbankana á sama tíma. Ef 2-3 ár hefðu liðið frá því að Landsbankinn var einkavæddur og þar til kom að Búnaðarbanka hefði eðlilegri samkeppni náð að myndast og stjórnvöld hefðu fengið hærra verð fyrir síðari bankann. Ríkisstjórnin átti líka að krefjast hærra eiginfjárhlutfalls en hún gerði, til að tryggja fjárhagslegri sterkari kaupendur. Hvorugt gerði ríkisstjórnin. Ástæðan er sú að eftir að ég og viðskiptafélagar mínir höfðum að eigin frumkvæði samband við stjórnvöld og lýstum áhuga á að kaupa Landsbankann – sem var í söluferli, þar sem við áttum erlent fjármagn til slíkra kaupa, þá sýktist ferlið af pólitík. Aðrir aðilar þröngvuðu sér inn í ferlið og spilltu því. Við uppfylltum stærsta skilyrðið, þar sem við vorum í raun erlendir fjárfestar. Þeir sem komu síðar inn i ferlið áttu ekkert eigið fé, hvað þá erlent fjármagn. Til að halda mikilvægum aðilum ánægðum ákvað ríkisstjórnin að selja báða bankana á sama tíma og um leið var ákveðið að fara ekki fram á hátt eiginfjárhlutfall. Þetta var gert til að liðka fyrir fjárvana, pólitískum bandamönnum, sem gátu nýtt pólitísk tengsl sín til að fá lán fyrir bankanum. Salan á Landsbankanum varð að forskrift fyrir sölu á Búnaðarbankanum.

Ég hafði ýmislegt við þetta ferli að athuga á sínum tíma og lét óánægju mína í ljós á opinberum vettvangi. Ég velti fyrir mér að hætta við kaupin og ég hefði átt að ganga á brott þegar ég áttaði mig á að verið var að hagræða ferlinu, til hagsbóta fyrir meinta kaupendur Búnaðarbankans. En ég ýtti eigin efasemdum frá mér og það reyndust mestu mistök sem ég hef gert. Pólitísku vildarvinirnir fengu bankann og hófu að blása út gengi hlutabréfa í honum til að afla fjár til að greiða kaupverðið. Sú samkeppni sem fylgdi í kjölfarið bar öll merki ofhitnunar frá upphafi og leiddi til þess að bankarnir uxu allt of hratt. Og í þessu samhengi bendi ég enn og aftur á að ég hef fyrir löngu lagt fram öll gögn sem sýna með óyggjandi hætti fram á að við greiddum Landsbankann að fullu. Samt sem áður finnast þeir enn, jafnvel innan ríkisstjórnarinnar, sem halda öðru fram.

Ég hefði líka átt að sjá hversu fámennur hópur og nátengdur var að baki viðskiptum á Íslandi. Bankarnir stækkuðu, en áhættan dreifðist ekki að sama skapi. Ég var vissulega einn af stærstu skuldurunum, en ég átti eignir á móti. Aðrir tóku lán með litlum eða jafnvel engum veðum, sem er fáránlegt! Mér varð ekki ljóst hið gríðarlega umfang „sýndarviðskipta“ fyrr en eftir hrunið. Og vel á minnst: Hvernig stendur á því að þeir sem voru mest áberandi eru ekki gjaldþrota? Aðeins þrír þeirra hafa lýst yfir gjaldþroti; báðir fyrrum viðskiptafélagar mínir í Landsbanka og einn framkvæmdastjóri hjá Baugi. Það er allt og sumt. Enginn annar, ekki einn af öllum þeim sem skulduðu sem mest í Kaupþingi, Glitni og Landsbanka, aðeins þessir þrír. Hvers vegna? Er þetta eðlilegt? Það er ekki eins og þeir sem tóku þátt í sýndarviðskiptunum og seldu hver öðrum eignir á útblásnu verði, hafi megnað að semja um yfirþyrmandi skuldir sínar.

Ekkert hrakið, engu svarað

Ég kom víðar við í erindi mínu, nefndi t.d. hve lítill hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi hefði verið, sem þýddi að auðvelt var að knýja fram sveiflur á honum. Ég nefndi líka að þörf væri á uppbyggingu á innviðum samfélagsins og kerfisbreytingum. Viðskiptafólk á Íslandi hefði gjarnan á orði að vinstri stjórnin þyrfti að fara frá, svo hægt væri að endurreisa viðskiptalífið. Það er hins vegar engin lausn. Það skiptir ekki máli hvaða flokkur er við völd, hægri eða vinstri, við þurfum grundvallar kerfisbreytingu og gríðarlega styrkingu innviða, sem tekur mörg ár að ná fram.

Ég benti á, að sjálfur hefði ég svarað ítarlega öllu sem fram kemur um mig í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Engir álitsgjafar eða sjálfskipaðir postular hefðu hrakið orð af því sem ég ritaði eða hef sagt í viðtölum. Ég bjóst við – og hefði fagnað – skynsamlegri og sanngjarnri umræðu, en nú geri ég mér grein fyrir að slíkt verður aldrei. Hið sama gildir um Icesave-umræðuna. Í sjónvarpsviðtali í október 2008 hélt ég því fram að eignir Landsbankans myndu nægja fyrir kröfum innistæðueigenda. Sú staðhæfing var dregin í efa, svo vægt sé til orða tekið og ég var kallaður lygari, en nú hefur komið í ljós að ég hafði rétt fyrir mér. Icesave var aldrei það skrímsli sem menn vildu vera láta. Umræðan var afskræm og óréttlát, eins og svo gjarnt hefur verið með ýmsa hluti eftir hrunið. Við verðum að læra af því og halda áfram.

Mikil orka í lítið

Ég var beðinn um að fjalla sérstaklega um það í erindi mínu hvaða stefnu Ísland ætti nú að taka. Ég benti á, að mörg þeirra vandamála sem Ísland ætti nú við að glíma væru ekki vegna hrunsins sjálfs, heldur viðbragða við því. Þannig væri kostnaður ríkissjóðs við að reyna að endurreisa sparisjóðakerfið  mun meiri en kostnaður ríkissjóðs vegna falls bankanna. Mikilli orku hefði verið eytt í mál sem litlu skiptu, á meðan önnur lægju óbætt hjá garði. Skattastefna ríkisins hefði verið gagnrýnd fyrir að draga máttinn úr efnahagslífinu og ríkisstjórnin hefði ekki rutt brautina fyrir erlenda fjárfestingu á Íslandi.

Í erindi mínu lagði ég mikla áherslu á að Íslendingar einbeittu sér að því að nýta til fulls hæfileika sína og þau tækifæri sem felast í smæðinni. Svo lítið samfélag þyrfti að endurmeta stöðu sína í tengslum við alþjóðavæðingu iðnaðar, viðskipta, þjónustu og fjármála. Ég taldi um tvo kosti að ræða, annars vegar að verða hluti af alþjóðlegum samtökum ríkja á borð við Evrópusambandið eða hins vegar, að horfast í augu við þá áhættu sem fylgir því að vera með eigin gjaldeyri en vera jafnframt algjörlega upp á umheiminn kominn í viðskiptum. Það leiddi óhjákvæmilega til áfalla, sem yrði að búa sig undir. Í stuttu máli má segja að í erindi mínu hafi ég fjallað um Ísland sem þorp í alþjóðlegu samhengi. Ég lagði áherslu á að lífið gæti verið frábært í þorpinu, en það yrði aldrei eins og líf í stórborg.

Lögbrjótar fái refsingu

Loks benti ég á, að sérstakur saksóknari og réttarkerfið á Íslandi væru nú að rannsaka atburði sem leiddu til hrunsins 2008. Ég kvaðst vonast til að innan þriggja ára lægi skýrt fyrir að hve miklu leyti viðskiptalífið á Íslandi í aðdraganda hruns hvíldi á lögbrotum. Það er gífurlega mikilvægt að þeir sem brutu lögin verði dregnir til ábyrgðar, ef takast á að byggja upp traust á nýjan leik. Við verðum að draga skýra línu á milli þeirra sem spiluðu eftir leikreglunum með raunverulegar eignir að baki og þeirra sem soguðu til sín fjármagn með sýndarviðskiptum.

Á Íslandi vék ég frá þeirri stefnu minni að vera fremur lítill fiskur í stórri tjörn en stór fiskur í lítilli tjörn. Það voru mistök og ég mun ekki endurtaka þau. Ég vona að efnahagserfiðleikarnir verði til þess að á Íslandi skapist heilbrigðara efnahagslíf, þar sem jafnvægi ræður ríkjum og þar sem lögum og reglum er framfylgt, öllum til hagsbóta.

Í lokin lýsti ég því yfir að ég væri sannfærður um að íslenska þjóðin myndi finna réttu leiðina til framtíðar, þótt áfram yrði tekist á um stjórnmál og hvað hafi farið úrskeiðis áður fyrr. Íslenska þjóðin hafi hins vegar áður sýnt að hún sé aldrei sterkari en þegar hún mætir mótlæti.

Hér má lesa erindið í heild.