Dropi í skuldahaf Baugs

Sú undarlega speki skýtur af og til upp kollinum að svo sé Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og viðskiptafélögum hans fyrir að þakka, að eigur Landsbankans muni nægja til að greiða kostnað við Icesave. Þannig birti bloggarinn Bubbi Morthens pistil á sunnudag, þar sem hann dásamaði Jón Ásgeir fyrir að „skilja eftir sig eignir“, þ.e. verslanakeðjuna Iceland Foods og að arðurinn af þeirri „eign“ Jóns Ásgeirs muni renna til að greiða Icesave. Þarna er öllu snúið á haus.

Hvers vegna ætti arður af eign Jóns Ásgeirs að renna til Landsbankans og þar með Icesave? Auðvitað liggur ekki svo í málinu. Iceland Foods er í eigu Landsbankans, sem eignaðist verslanakeðjuna eftir að Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans höfðu skafið allt fé úr fyrirtækinu og í kjölfarið misst það til lánardrottna, í þessu tilviki Landsbankans og Glitnis, eins og lög gera ráð fyrir. Kaupin á fyrirtækinu voru fjármögnuð af lánardrottnum og  skráð „eign“ Jóns Ásgeirs og félaga um tíma var einfaldlega horfin, kröfuhafar áttu fyrirtækið með réttu. Að tala um að Jón Ásgeir og félagar hafi skilið eftir sig eignir, sem nú komi til bjargar, lýsir takmörkuðu viðskiptaviti og gagnrýnislausu hugarfari.

DV fjallar í dag um hvernig stóð á því að Landsbankinn og aðrir kröfuhafar eignuðust Iceland Foods með réttu. Þar er skýrt frá því hvernig Landsbankinn brást við til að tryggja að hann fengi lán sín til skráðra eigenda Iceland Foods greidd. Þá ráðstöfun kynnti viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, Pálmi Haraldsson, sem „Íslandsmet í hagnaði“. Sú fullyrðing hans var byggð á álíka miklu viðskiptaviti og sannleiksást og pistill Bubba.

Bubbi heldur að aðrir greiði „ekki krónu með gati“ upp í Icesave, eins og hann orðar það. Þar er sama öfugsnúna spekin á ferðinni og fyrri daginn. Landsbankinn tók Iceland Foods upp í gríðarlegar skuldir og getur vonandi selt þá eign sína á ágætu verði og reynt að grynnka þannig á þeim stórskuldum sem Baugur og tengd félög höfðu stofnað til. Að sama skapi hef ég samið um uppgjör allra skulda mínar og fjárfestingarfélags míns, Novators, við Landsbankann og aðra kröfuhafa. Til grundvallar því uppgjöri lágu allar eignir mínar og Novators.

Þær eignir Landsbankans í Lundúnum, sem áður voru skráðar eign Baugs, eru aðeins lítill hluti heildareignasafns bankans. Fyrrum eigur Baugs eru hins vegar áberandi í umræðunni vegna þeirrar óvissu, sem ríkir um verðmæti þeirra.

Loks er rétt að minna á, að heildarskuldir Baugs og tengdra félaga voru gríðarmiklar. Þrátt fyrir að Landsbankinn nái að selja Iceland Foods á góðu verði, jafnvel á þá 2-300 milljarða sem Bubbi nefnir, er langur vegur þar til þær skuldir teljast fullgreiddar. Og margar aðrar „gullgæsir“ í fyrrum eignasafni Baugs verpa tómum fúleggjum, svo ekki er mikils að vænta þaðan.