Bauð aldrei lán

DV birtir í dag frétt þar sem samstarfsmaður minn til margra ára, Andri Sveinsson, er sagður hafa boðið manni símleiðis 1,6 milljarða lán frá Landsbankanum. Blaðið lætur undir höfuð leggjast að segja frá því að Andri neitaði þessu. Þá tekur blaðið fram að maðurinn, sem átti að hafa fengið tilboðið símleiðis frá Andra, hefur neitað að tala við blaðamann um málið. Þetta kemur auðvitað ekki í veg fyrir að DV þykist vita allt um símtalið!

 

DV hefur undanfarið farið mikinn í lýsingum á því að Stefán Ingimar Bjarnason, fjármálastjóri Stillingar og  bróðir fyrrverandi forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans, hafi fengið 1,6 milljarða lán frá Landsbankanum til að kaupa hlutabréf í bankanum í september 2008. Í dag fer blaðið gjörsamlega offari, birtir stóra mynd af mér og fyrirsögnina „starfsmaður Björgólfs bauð Stefáni lán.“

Við vinnslu fréttarinnar setti blaðamaðurinn, Ingi Freyr Vilhjálmsson, sig í samband við talsmann Novators, Ragnhildi Sverrisdóttur og leitaði liðsinnis hennar við að hafa uppi á Andra, sem er á ferðalagi erlendis. Ragnhildur sendi Inga svohljóðandi tölvupóst:

From: Ragnhildur Sverrisdottir
Sent: 20. janúar 2011 16:15
To: ‘Ingi Freyr Vilhjálmsson’
Subject: v Andra Sv.

 

Ég náði sambandi við Andra Sveinsson og bar undir hann fyrirspurn þína vegna láns til félagsins Hanslow/Stefáns Ingimars Bjarnasonar. Svar Andra er einfalt: Hann bauð aldrei neitt lán frá Landsbankanum, enda hafði hann ekkert umboð til slíks.

Kveðja

Ragnhildur

Þegar fréttin birtist í DV var ekki orð að finna um þetta svar, heldur sagt að DV hafi ekki náð sambandi við Andra. Í fréttinni segir líka skýrum stöfum, að Stefán Ingimar, hinn aðilinn að meintu símtali, „hafi ekki viljað ræða við DV um málið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir“. Samt sem áður fullyrðir blaðið að Andri, sem var ekki í stjórn Landsbankans á þessum tíma og gat því ekki veitt nein vilyrði fyrir lánum, hafi hringt í Stefán Bjarna og sagt orðrétt: „Við viljum endilega lána þér 1.600 milljónir.“

Ingi Freyr hefur upplýst í tölvupóstsamskiptum við Ragnhildi, að hann hafi leitað eftir svörum Andra „til að athuga hvað hann myndi segja“ og að hann hafi ekki birt svar hans af því að hann „trúi heimildarmanninum“.

Í eina tíð þótti sjálfsagt að menn fengju að svara ávirðingum sem á þá voru bornar. Jafnvel DV virti þá reglu að mestu, en henni hefur nú verið varpað endanlega fyrir róða af því að blaðið vill fremur hafa það sem betur hljómar.