Ársgömul tíðindi

Ólafur Kristinsson lögmaður boðaði fyrir réttu ári að hann ætlaði að safna fyrrum hluthöfum í Landsbankanum saman og hefja hópmálsókn gegn mér. Hann hefur nú birt auglýsingu, þar sem hann brýnir enn fyrrum hluthafa til að hafa samband við sig, svo hægt verði að fara í svokallað vitnamál. Ólafur heldur því fram að ég hafi verið ranglega skilgreindur sem ótengdur aðili innan bankans og horfir þar langt aftur í tímann og hunsar upplýsingar sem fram hafa komið. Fram að yfirtöku fyrirtækja minna á Actavis voru Landsbankinn og Fjármálaeftirlitið vissulega ekki sammála um hvort líta bæri svo á að ég hefði yfirráð yfir því félagi, en þar fór ég með tæplega 40% hlutafjár. Hafa skal í huga að þau lán sem hér um ræðir voru greidd upp í Landsbankanum við yfirtökuna árið 2007. Samantekt um þessi mál er að finna hér.


 

Ólafur virðist byggja framgöngu sína á þeirri trú, að ekki hafi verið réttilega upplýst um eignarhlut samstarfsmanna minna í Samson eignarhaldsfélaginu sem fór með ríflega 40% eignarhlut í Landsbankanum. Eins og fram hefur komið þá var bæði FME og regluverði Landsbankans kunnugt um það eignarhald. Fullyrðingar um annað byggja ekki á neinum gögnum.

Það er grundvallarregla í réttarríki að telji menn á sér brotið geta þeir leitað til dómstóla, sem leiða hið rétta fram. Ég hef áður lýst því yfir að þetta mál verði ekki flutt í fjölmiðlum af minni hálfu. Þeir sem vilja kynna sér málið ítarlegar hafa allar upplýsingar á þessum vef, m.a. í greinargóðu svari talsmanns míns í nóvember í fyrra og ítrekun mína á þeim svörum í desember sama ár.