Stöð 2 og Vísir.is standa við rangfærslur í fréttum sínum

Stöð 2 og Vísir.is birtu í gærkvöldi fréttir um breytingar á eignarhlutum í Samson á árinu 2007 en félagið fór með ríflega 40% í Landsbankanum. Þá eignuðust nánustu samstarfsmenn mínir í Novator  5% í félagi mínu Givenshire sem átti helming í Samson. Í fréttum samsteypunnar er látið  í veðri vaka að þarna hafi verið um leynigjörning að ræða sem er rangt því að þessar breytingar voru tilkynntar þartilgerðum yfirvöldum og að öllu farið að lögum. Þá setur fréttamaðurinn málið “í samhengi“ og dregur fram gamalt alþjóðlegt skuldabréfaútboð í Landsbankanum frá árinu áður. Gefur hann í skyn villandi upplýsingagjöf bankans og ber saman við málaferli þau sem slitastjórn Glitnis á í við fyrrum eigendur bankans. Athugasemd var send fjölmiðlasamsteypunni vegna rangfærslna sem birti hana að hluta á vefmiðlunum og las síðan athugsemd í fréttatíma Stöðvarinnar í kvöld. Fréttastofan sagðist engu að síður standa við fréttina sem er full af rangfærslum .

 

Athugasemdin var svohljóðandi:

„Í fyrstu frétt Stöðvar 2 miðvikudagskvöldið 8. september og í langri frétt á Vísi.is er farið með dylgjur og ósannindi um eignarhlut starfsmanna Novators í félaginu Givenshire, sem átti hlut í Samson. Jafnframt eru alvarlegar aðdróttanir um lögbrot þegar Landsbankinn réðst í skuldabréfaútboð í Bandaríkjunum árið 2006.

Fréttamaðurinn, Þorbjörn Þórðarson, gengur út frá því að 5% eignarhlutur starfsmanna Novators hafi verið „leynilegur“ og byggir furðulegar ályktanir sínar á því. Samkvæmt tölvupósti frá lögmanni Samson til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007 er FME tilkynnt um breytingar á eignarhaldi á Samson. Þar kemur fram hverjir eigendur allra hlutanna eru, þar á meðal að félag starfsmanna haldi á 5% hlut í Givenshire. Í tölvupósti til Landsbankans stuttu síðar er nákvæmlega sömu upplýsingar að finna. Ef heimildir fréttamannsins hefðu verið traustar, þá hefði hann að sjálfsögðu fengið staðfest að bæði FME og Landsbankinn vissu af þessum eignarhlut.

Í fréttinni, eins og hún birtist fyrst á vísi.is, var réttilega haft eftir Ragnhildi Sverrisdóttur, talsmanni Björgólfs Thors, að eignarhlutur starfsmanna í Givenshire hafi að sjálfsögðu verið tilkynntur til FME á sínum tíma. Hins vegar kaus fréttamaðurinn að rita síðar í fréttinni, að ekki yrði dregin önnur ályktun en að FME hafi ekki vitað um eignarhlutinn, þar sem bankinn sjálfur hafi ekki vitað um hann og var fullyrt að það hafi verið Landsbankans að senda FME upplýsingar um eignarhald. Nú hefur fréttinni verið breytt,svo „ályktunin“ er horfin, enda fólst í henni bein yfirlýsing um að talsmaðurinn færi með rangt mál. Það er hins vegar alveg ljóst, að bæði Landsbankinn og FME vissu um eignarhlutinn og fengu formlega tilkynningu um hann. Það var hins vegar aldrei hlutverk Landsbankans að tilkynna um breytt eignarhald á þeim félögum sem áttu hlut í honum; það gerðu viðkomandi félög sjálf. Þar var enn ein rangfærslan, sem síðar hvarf úr fréttinni. 

Þótt starfsmenn Novators hafi ekki eignast 5% hlut í Givenshire fyrr en árið 2007, þá kýs fréttamaðurinn að nota þann eignarhlut til að kasta rýrð á áreiðanleika upplýsinga í skuldabréfaútboði árið 2006. Þar er ekki verið að spara stóru orðin, heldur gefið í skyn að þrotabú Landsbankans ætti að höfða mál á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, á sömu forsendum og þrotabú Glitnis höfðaði mál gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og viðskiptafélögum hans. Allar forsendur þessarar ályktunar eru kolrangar og niðurstaðan því að sjálfsögðu einnig. Þá er einnig horft framhjá því í fréttinni að lánshæfismatsfyrirtæki hafa það hlutverk að yfirfara og staðfesta upplýsingar í skuldabréfaútboðum og þau fyrirtæki höfðu upplýsingar á hverjum tíma um stærstu eigendur Landsbankans og viðskiptastöðu þeirra í bankanum. 

Fleiri rangfærslur var að finna í þessari einu frétt. Þar sagði t.d. að í rannsóknarskýrslu Alþingis kæmi fram að „lánveitingar Landsbankans til Björgólfs námu á einum tímapunkti 50 prósentum af eigin fé Landsbankans“. Þessari setningu var að vísu breytt degi síðar í þeirri útgáfu sem finna má á Vísi.is, svo nú segir réttilega að þessar upplýsingar eigi við um Björgólf Thor og tengd félög, en ekki Björgólf Thor persónulega. Það munar afskaplega miklu á að tilgreina hann einan, eða „tengd félög“. Þar verður að hafa í huga, að rannsóknarnefndin vildi skilgreina Actavis sem tengt félag innan bankans, sem bankinn hafði ekki viljað gera og vísast þar til bréfaskipta bankans og FME vegna málsins, sem sagt er frá í sömu skýrslu.

Þótt fréttamaðurinn hafi klórað í bakkann og ýmist tekið út slæmar villur eða bætt inn í betri heimildum, þá er ljóst að skaðinn af þessum fréttaflutningi er þegar orðinn. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísir.is eru þar undir sömu sök seldar og DV, sem virðist hafa sömu „heimildir“ fyrir skrifum sínum um „leynifélag“ starfsmanna Novators. Enga staðfestingu á nokkrum staðhæfingum er að finna í þessum fréttum, aðeins vísað til óljósra heimilda, sem allar reyndast svo meira eða minna rangar. Líklega er ekki við öðru að búast þegar ekki er einu sinni hægt að fara rétt með það sem rannsóknarnefndin skráði í skýrslu sína.

Þegar um er að ræða atburði, sem gerðust fyrir 3-4 árum, er óskiljanlegt að svo mikið liggi á að koma fréttinni á framfæri að Stöð 2 og Vísir víki frá vönduðum vinnubrögðum.“

Síðar var þess óskað að lesin yrði athugasemd frá mér í fréttum Stöðvar 2, þar sem fram kom að bæði Landsbankanum og FME var tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Givenshire og því mótmælt að eitthvað ólögmætt hefði verið við skuldabréfaútboðið, sem hafði ranglega verið tengt við eignarhaldsbreytingarnar. Stöð 2 lýsti því hins vegar yfir í kjölfar þeirrar yfirlýsingar, að fréttastofan stæði við frétt sína.