Hrun banka – hrun efnahagslífs

Skilningur virðist vaxa á að hrunið á Íslandi haustið 2008 var margþætt. Ljóst er að hrun fjármálakerfisins leiddi til hruns efnahagslífs og að margar dómi hruns stjórnmálalífs. Þá hafa einhverjir láiið í ljós áhyggjur af réttarríkinu. Þó svo að eitt hafi leitt af öðru er ekki víst að svo hefði þurft að vera. Gunnar Smári Egilsson blaðamaður ritaði áhugaverða grein í Fréttablaðið sl. laugardag. Þar segir að hrun banka hafi verið eitt; hrun efnahagslífs annað.

 

Í grein sinni segir Gunnar Smári Egilsson m.a.: „Það hafa margir hag af því að yfirfæra niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis yfir á samfélagið allt. Þegar litið er yfir fréttir haustsins af þrotarekstri sveitarfélaga, gjaldþroti orkufyrirtækja, skuldasöfnun heimila, fyrirtækja, trillukarla, bænda og safnaðarfélaga, töpuðum lífeyri, draugahverfum upp um allar heiðar, höfn sem byggð er á sandi – þá er erfitt að kyngja þeirri kenningu að þetta sé allt Jóni Ásgeiri að kenna. Eða Sigurjóni Árnasyni. Og allir aðrir séu saklausir.“

Í greininni fjallar Gunnar Smári aðallega um störf Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og  veltir jafnframt  fyrir sér ábyrgð á hruni efnahagslífsins. Þar ritar hann: „Og við hin ættum að hafa hugfast að þótt niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis á hruni bankanna væri að stjórnendur bankanna bæru mesta ábyrgð á falli þeirra; þá er ekki þar með sagt að þessir stjórnendur bankanna beri mesta ábyrgð á falli íslensks efnahagslífs. Það fall var í boði íslenskra stjórnmálamanna. Það var ráðherranna að fylgjast með þróun mála og bregðast við. Útlánaaukning banka í kjölfar einkavæðingar var fyrirsjáanleg og hefði ekki orðið taumlaus og skaðleg nema sökum þess að þeir sem fóru með efnahagsstjórnina voru ábyrgðarlausir lýðskrumarar sem böðuðu sig í skammvinnri gleði almennings yfir innistæðulausri velsæld. Stærsta bóla heimsögunnar hefði ekki þanist út á Íslandi nema fyrir útreiknað mat stjórnmálamanna á hag sínum af þenslunni. Þeir mátu að ávinningur sinn af almennri velsældartilfinningu og auðsöfnun væri áhættunnar virði. Ímyndað góðæri myndi halda þeim við völd – um sinn að minnsta kosti.“

Allt frá hruni hefur verið leitast við að finna þá sem ábyrgð báru á hruni efnahagslífsins og mál þá oft einfölduð um of. Gunnar Smári bendir á að hrun banka er eitt; hrun efnahagslífs annað.