Ágætu lesendur

BTB-myndVefur þessi er vettvangur fyrir mig, Björgólf Thor Björgólfsson, til að miðla upplýsingum um viðskipti mín á Íslandi. Frá falli íslensku bankanna haustið 2008 hefur almenningi verið boðið upp á afar misvísandi fréttir af íslensku viðskiptalífi á árunum fyrir hrun og oft hefur verið þrautin þyngri að greina sannleikann frá hálfsannleika og hreinum uppspuna. Ég hvet lesendur þessa vefjar til að skoða efni hans rækilega, ræða það sín á milli og rita allar þær athugasemdir, sem þeim þykja sæmandi. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna og tengda atburði er mikilvægt innlegg fyrir alla sem vilja átta sig á hvers vegna mál þróuðust á versta veg, hver var ábyrgð hverra, hverjir fóru offari og hverjir sváfu á verði og hvort farið var á svig við lög og reglur. Ég mun ekki á nokkurn hátt víkja mér undan ábyrgð, en ég kvíði heldur ekki endanlegum dómi þeirra sem kynna sér alla málavöxtu.

Ég hef verið búsettur í útlöndum í aldarfjórðung, hef stundað þar viðskipti og lét nokkuð að mér kveða á Íslandi áður en ég varð kjölfestufjárfestir í Landsbankanum. Af öllum viðskiptum mínum hefur kastljósið beinst mest að Landsbankanum og á þessum vef er mikinn fjölda skjala að finna, sem varpa ljósi á aðkomu mína þar.

Á árunum eftir 2002 jukust markaðsverðmæti eigna minna á Íslandi hratt. Ólíkt fjárfestingum mínum á meginlandi Evrópu innleysti ég aldrei hagnað af viðskiptum í Kauphöll Íslands. Ég seldi nánast aldrei hlutabréf í þeim skráðu félögum sem ég átti í og því tapaði ég þessum eignum við fall íslenska fjármálakerfisins veturinn 2008 – 2009. Í kjölfarið hafa síðan fallið á mig miklar ábyrgðir. Þessar skuldir hef ég nú að fullu gert upp.

Eitt af því sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi ámælisvert í aðdraganda hrunsins eru miklar lántökur stærstu eigenda bankanna.  Ég er þar ekki undantekning. Þrátt fyrir að stærsti hluti lánaviðskipta minna hafi verið við erlendar fjármálastofnanir, þá sé ég núna að eðlilegra hefði verið fyrir mig sem alþjóðlegur fjárfestir að beina lánaviðskiptum mínum enn frekar frá Íslandi. Ég átti þátt í eigna- og skuldabólunni, sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins, ég gerði ýmis mistök og ég ítreka afsökunarbeiðni mína til Íslendinga vegna þess.

Hvern og einn ber að meta út frá þeirra eigin verðleikum. Ég er ósáttur við að vera settur undir sama hatt og þeir, sem stunduðu endalausa hringekju eigna sín á milli með skuldsettum yfirtökum. Þeir sköpuðu aldrei nein verðmæti í raun, heldur hækkuðu bara verð á pappírum. Slík viðskipti hef ég ekki stundað. Ég flutti beinharða peninga inn í landið frá arðbærum fjárfestingum erlendis. Flæði peninga inn í landið fyrir mína tilstuðlan var sambærilegt því flæði peninga úr landi, sem margir aðrir viðskiptamenn töldu sér sæmandi.

Við þá, sem ekki þekkja til fjármögnunar fyrirtækja minna, vil ég því segja að ég hef aldrei tekið til mín ásakanir um að íslenskir viðskiptamenn hafi farið á eyðslufyllerí erlendis fyrir íslenskt lánsfé eða hagnað af sölu fyrirtækja á Íslandi. Mínir helstu lánardrottnar eru erlendir og nær allur hagnaður sem mér hefur áskotnast á síðustu árum varð til við kaup og sölu eigna í útlöndum. Þeir sem kynna sér efni þessa vefjar fá þetta staðfest og sjá þá jafnframt, að grundvallarmunur var ávallt á viðskiptaháttum mínum og þeirra, sem virðast fátt annað hafa haft til viðskipta að leggja en aðstoða hver annan við að búa til loftkastala.

Icesave og ábyrgð                                      

Frá hruni bankakerfisins hefur Icesave-deilan við Breta og Hollendinga orðið tákngervingur alls þess sem úrskeiðis fór. Ég tók ekki ákvörðun um stofnun þeirra reikninga, enda stýrði ég ekki Landsbanka Íslands þótt ég ætti stóran hlut í honum. Hins vegar vil ég benda á, að enginn varð til þess að vara við Icesave á sínum tíma, heldur var framtakið þvert á móti lofað í hástert og meira að segja verðlaunað, bæði hér heima og erlendis. Icesave-reikningarnir voru ekki svar við lausafjárvanda Landsbankans, eins og sumir eftiráskýrendur hafa haldið fram, heldur eðlilegt framhald af starfsemi bankans í útlöndum, áður en lánsfjárvandi gerði vart við sig á alþjóðlegum fjármálamarkaði, eins og fram hefur komið  hjá öðrum  bankastjóra Landsbankans. Það breytir því hins vegar ekki að þetta úrræði nýttist þegar lánsfjárvandinn gerði vart við sig. Það, að stjórnmálamenn kjósi nú að gera Icesave og Landsbankann að blóraböggli, er á engan hátt eðlilegt, einkum þegar haft er í huga að formleg ábyrgð íslenska ríkisins á Icesave skuldbindingum kom til eftir að ríkisvaldið tók yfir Landsbankann og stjórnmálamenn hófu bein afskipti að málefnum bankans.

Þær raddir eru eðlilega háværar, sem kalla eftir ábyrgð þeirra sem mestu réðu í íslensku viðskiptalífi á góðæristíma. Ég hef aldrei vikist undan slíku. Viðskipti mín hafa einkennst af því, að ég hef lagt sjálfan mig að veði. Aðrir hafa gengið frá viðskiptum sínum án þess að hægt væri að ganga að nokkrum eignum upp í skuldir. Ég hef  hins vegar gert upp allar mínar skuldir við íslenska og erlenda lánardrottna mína, eins og ég sagðist ávallt ætla að gera.

Blómleg fyrirtæki

Ég hef stundað fjölbreytt viðskipti á Íslandi og er stoltur af að hafa veitt hundruðum vinnu á undanförnum árum. Ég stofnaði símafyrirtækið Nova, sem hefur þegar náð góðri markaðshlutdeild og aukin samkeppni hefur leitt til lægra verðs á farsímaþjónustu, almenningi til hagsbóta. Við stofnun fyrirtækisins lagði ég fram allt eigið fé þess í evrum, rétt eins og ég hafði áður flutt fé frá útlöndum til fjárfestinga hér. Ég hef líka átt stóran hlut í hinu framsækna leikjafyrirtæki CCP um nokkurra ára skeið. Og ég hef verið stoltur  aðaleigandi lyfjafyrirtækisins Actavis, sem er stærsta fyrirtæki landsins og eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Við kaup félaga undir minni forystu á Actavis sumarið 2007 högnuðust hluthafar vel. Rekstur allra þessara fyrirtækja mun vonandi enn vaxa og dafna.

Fleiri fjárfestingar á Íslandi mætti nefna og þá sérstaklega rekstur gagnavers á Reykjanesi. Ég kom að stofnun félagsins Verne Holdings, sem stendur að því gagnaveri í samstarfi við tvo virta aðila, annars vegar bandaríska fjárfestingarsjóðinn General Catalyst Partners og hins vegar breska góðgerðasjóðinn Wellcome Trust. Gagnaverið mun skjóta styrkum stoðum undir atvinnulíf á Suðurnesjum, sem hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum á undanförnum árum. Alþingi samþykkti sérstaka löggjöf, sem veitti gagnaverinu og viðskiptavinum þess skattaívilnanir til að auðvelda fyrstu skref starfseminnar. Þátttaka mín í þessari uppbyggingu var umdeild og ég afsalaði mér mínum hlut í þessum ívilnunum, til að tryggja framgang verkefnisins og valda ekki meðeigendum mínum skaða.

Uppbygging að nýju

Í kjölfar hrunsins hefur þess verið krafist, að þeir sem getu hafi til hjálpi til að reisa íslenskt efnahagslíf úr rústum. Það vil ég gera og þess vegna furða ég mig á þeim röddum, sem segja að aldrei megi semja við mig um fjárfestingar af neinu tagi, enda sé ég einn þeirra sem ábyrgð beri á hruninu. Er það svo, að fólk vilji útiloka alla þá frá viðskiptum á Íslandi, sem hafa áður komið að málum? Er það sanngjörn og réttlát niðurstaða? Mér finnst á allan hátt eðlilegra að líta á feril hvers og eins, en ekki að setja alla undir sama hatt.  

Ég hef aldrei ætlað mér annað en uppbyggingu á Íslandi. Vissulega hafa umsvif mín, hér á landi og erlendis, kallað á athygli. Eignir mínar töldust á tímabili svo miklar, að ég var skráður í hópi auðugustu manna heims. Slík skráning er aðeins staðfesting á að þeir sem best til þekkja vita að ég stundaði ekki sýndarviðskipti með upplognar eignir, heldur eðlileg viðskipti með raunverulegar eignir.

Loks hvet ég lesendur þessa vefjar til að skoða efni hans rækilega og ræða það sín á milli. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna og tengda atburði er mikilvægt innlegg fyrir alla sem vilja átta sig á hvers vegna mál þróuðust á versta veg, hver var ábyrgð hverra, hverjir fóru offari og hverjir sváfu á verði og hvort farið var á svig við lög og reglur. Ég mun ekki á nokkurn hátt víkja mér undan ábyrgð, en ég kvíði heldur ekki endanlegum dómi þeirra sem kynna sér alla málavöxtu.

Björgólfur Thor Björgólfsson