Röng mynd – villandi og rangar upplýsingar

Sú mynd sem dregin er af skuldum mínum við íslenska banka í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er röng. Ýmsar upplýsingar sem settar eru fram eru rangar og aðrar eru villandi. Helst reynir rannsóknarnefndin að telja til minna skulda ýmsar skuldir félaga sem ég hafði lítið sem ekkert með að gera og átti lítið í. Sú aðferð rannsóknarnefndarinnar að telja það til minna skulda byggir hvorki á lagastoðum né venjum. Skuldir fyrirtækja sem ég leiddi voru að sönnu miklar og í rauninni of miklar eins og ég hef sjálfur viðurkennt. Ástæðulaust er hins vegar af rannsóknarnefndinni að bæta við þær skuldum sem ég efndi hvorki til né bar beina ábyrgð á.

 

Í kafla 8.7.3.4. er fjallað að um lán til mín í íslenska kerfinu. Þar segir á bls. 144:

Björgólfur Thor Björgólfsson var helmingseigandi í Samson eignarhaldsfélagi á móti föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, frá miðju ári 2005 en Samson var stærsti eigandi Landsbanka Íslands, með yfir 40% eignarhlut. Jafnframt var Björgólfur Thor stærsti eigandi og stjórnarformaður Straums-Burðaráss.

Mynd 61 sýnir heildarútlán Björgólfs Thors og tengdra aðila hjá móðurfélögum stóru bankanna þriggja. Þrír stærstu einstöku liðirnir voru Samson, Actavis (og tengd félög) og Fjárfestingarfélagið Grettir. Raunar var Fjárfestingarfélagið Grettir að stærstum hluta í eigu Björgólfs Guðmundssonar en í gegnum Samson og Novator var eiginleg eign Björgólfs Thors rétt rúmur fimmtungur í félaginu. Eins og fjallað er um í kafla 8.6.4.5 taldi Landsbankinn Actavis ekki tengt Björgólfi Thor, sem var stjórnarformaður félagsins. Útlán til hóps Björgólfs Thors fóru hæst í rúmlega 1,3 milljarða evra og voru þau aðallega hjá Glitni og Landsbankanum. Hlutur „annarra félaga“ í hópnum er hér nokkur og er bent á töflu 4 í fylgiskjali 3 við þennan kafla en hún sýnir öll helstu félög sem töldust með í hópnum samkvæmt þeirri aðferðafræði sem beitt var.

Mynd 61.

RNA---Mynd-61

RNA---Tafla-4

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Þessar upplýsingar eru afar villandi og þær gefa ranga mynd af lánaviðskiptum Björgólfs Thor. Hér eru taldar með heildarskuldbindingum félaga tengdum honum allar skuldbindingar félaga sem hann á aðeins að hluta og félaga sem hann á aðeins lítinn hluta í og hefur haft sáralítil sem engin afskipti af. Það er ekki í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Eftirfarandi er nauðsynlegt að komi fram:

  • Allar skuldbindingar Samson eignarhaldsfélags ehf. eru taldar hér en Björgólfur Thor átti innan við helming af því félagi.
  • Allar skuldbindingar Actavis fram að yfirtöku síðari hluta ár 2007 eru hér taldar sem skuldbinding Björgólfs Thors en Actavis var fram að yfirtöku almenningshlutafélag skráð í Kauphöll og fór Björgólfur Thor aldrei með yfirráð í félaginu fram að þeim tíma.
  • Taldar eru með skuldbindingar félaga á vegum Actavis, Fjallkonugil ehf. og Herkonugil ehf., sem stofnuð voru sérstaklega vegna tilboða Actavis í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva. Fyrir utan að félög þessi vörðuðu Björgólf Thor aldrei með beinum hætti voru skuldbindingar þeirra gerðar upp árið 2007.
  • Skuldbindingar Fjárfestingafélagsins Grettis ehf. er taldar Björgólfs Thors en óbeinn hlutur hans í því félagi var aðeins um 12% en ekki „rétt rúmur fimmtungur“ eins og segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar auk þess sem hann kom aldrei að rekstri þess félags.
  • Skuldbindingar fasteignafélaganna Samson Properties ehf., Samson Partners – Properties 1, Vatn og land ehf. og Rauðsvík eru taldar Björgólfs Thors að fullu þó svo að hann hafi ekki átt nema 35% af hlutafé félaganna.

Það er rétt sem segir hér að Fjárfestingarfélagið Grettir var að stærstum hluta í eigu Björgólfs Guðmundssonar. Björgólfur Thor var óvirkur fjárfestir í gegnum Samson. Ákvarðanir um fjárfestingar Grettis í Eimskip og Icelandic Group á árinu 2007 voru alfarið teknar af meirihlutaeiganda félagsins. Mikilvægt er að hafa í huga þegar rætt er um skuldbindingar Grettis í Landsbankanum að upphaflega lánaði Landsbankinn Gretti til að kaupa hlutabréf í Eimskip og Icelandic þegar Grettir var í meirihlutaeigu annarra en Björgólfs Guðmundssonar. Björgólfur Guðmundsson yfirtók skuldirnar þegar hann varð meirihlutaeigandi Grettis veturinn 2006 – 2007 og til að treysta veð bankans enn frekar gekk hann í persónulegar ábyrgðir umfram skyldu. Hann stofnaði því ekki sjálfur til þessara skulda við Landsbankann.  Landsbankinn veitti aðeins eitt lán til Grettis þegar það var  í meirihlutaeigu Björgólfs Guðmundssonar. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að Eimskip og Icelandic Group voru í hópi þeirra íslensku stórfyrirtækja sem höfðu verið í áratugi í viðskiptum við Landsbankann. Mynd 61(hér að ofan) í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis færir því upp á Björgólf Thor skuldir á árunum 2005 og 2006 sem voru í félagi sem hvorki hann né faðir hans áttu á þeim tíma. Að auki telur nefndin til skuldir Actavis sem hann réð ekki fyrr en eftir yfirtöku félagsins seinni hluta árs 2007. Rannsóknarnefnd Alþingis hefði með eðlilegum fyrirspurnum í sinni upplýsingaöflun auðveldlega getað komið í veg fyrir þessar rangfærslur.

Samantekt þessi um heildarskuldbindingar Björgólf Thors er röng og afar villandi. Það sem samantektin sýnir er heildarskuldir nokkurra félaga sem Björgólfur Thor er stór hluthafi í eða átti eftir að verða hluthafi í. Erfitt er því að sjá hvaða merkingu það hefur þegar sagt er að „útlán til hóps Björgólfs Thors fóru hæst í rúmlega 1,3 milljarða evra“.  Þá er erfitt að skilja þær forsendur sem höfundar skýrslu rannsóknarnefndar leggja til grundvallar þessarar samantektar þar sem þær byggja ekki á þeim lögum sem giltu á þeim tíma sem rannsókn nefndarinnar beindist að.

Í skýrslunni kemur einnig fram:

 RNA---Mynd-62

Mynd 62 sýnir þróun útlána Glitnis til hóps Björgólfs Thors. Fjárfestingarfélagið Klaki ehf. var félag í eigu Björgólfs Thors utan um hlutabréf í Actavis. Því má í raun skipta útlánum Glitnis til hóps Björgólfs Thors í tvennt, til Samsonar annars vegar og hins vegar til Actavis og Klaka.Á árinu 2007 fóru heildarútlán hópsins yfir 30% af eiginfjárgrunni Glitnis.Við yfirtöku Björgólfs Thors á Actavis um mitt ár 2007, sem fjallað er um í kafla 8.8, voru skuldir bæði Actavis og Klaka við bankann greiddar upp og eftir það voru skuldir hópsins fyrst og fremst af hálfu Samson, um 10% af eiginfjárgrunni Glitnis.

RNA---Mynd-63

Útlán Kaupþings til hóps Björgólfs Thors má sjá á mynd 63 en þau voru umtalsvert lægri en í hinum bönkunum. Samson var stærsti lántakandinn en Amber International, næststærsti lántakandinn, var annað félag í eigu Björgólfs Thors utan um hlutabréf í Actavis.

 RNA---Mynd-64

Mynd 64 sýnir útlán Landsbankans til hóps Björgólfs Thors. Þau voru nær eingöngu til Fjárfestingarfélagsins Grettis og Actavistengdra félaga. Sjá má að við yfirtöku Björgólfs á Actavis greiddi Actavis upp skuld sína við Landsbankann en örlítið hærra lán var veitt til Actavis Pharma Holding 2, sem var stofnað í kringum yfirtökuna. Nánar er sagt frá því í kafla 8.8. Í september 2008 veitti Landsbankinn Samson 168 milljóna punda lán, sem samkvæmt fundargerð lánanefndar Landsbankans var vegna gjaldþrots XL Leisure Group og ráðstafaðist allt til lækkunar á skuldbindingum við bankann. Síðustu 18 mánuðina fyrir fall Landsbankans sveifluðust heildarútlán móðurfélagsins til hóps Björgólfs Thors í kringum 20% af eiginfjárgrunni bankans.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Hér fer skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis með rangt mál. Í fyrsta lagi þegar í skýrslunni segir að Landsbankinn hafi veitt Samson lán vegna gjaldþrots XL Leisure Group er mikilvægt að fram komi að ekki var um nýja lánaskuldbindingu bankans að ræða. Hún var til staðar í bankanum. Lánið var upphaflega til félags sem var á þeim tíma óviðkomandi eigendum Samsonar. Vegna gjaldþrots XL Leisure Group stefndi í að þessi gamla lánaskuldbinding félli á Eimskip með alvarlegum afleiðingum fyrir félagið og síðan Landsbankann vegna mikilla skulda þess félags í bankanum. Samson ábyrgðist þessar skuldbindingar sem annars hefðu lent á Eimskip og síðan á bankanum og þá um leið á öllum hluthöfum hans. Hið sanna er að staða Landsbankans styrktist við þessa ábyrgð. Það er því rangt að tala um lán til Samsonar. Hagsmunir Landsbankans voru hafðir í fyrirrúmi í þessum viðskiptum. Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson tóku mikla persónulega áhættu umfram aðra hluthafa Landsbankans, þótt allir hluthafar nytu góðs af. Ekki er ljóst af hverju rannsóknarnefnd Alþingis fer hér með rangt mál og snýr á hvolf því allar upplýsingar um þetta mál hafa lengi legið fyrir. Rannsóknarnefndin bendir hins vegar réttilega á að þetta „lán“ ráðstafaðist allt til lækkunar á skuldbindingum við bankann.

Hér má sjá að Björgólfur Thor er að auka áhættu sína og veita bönkum auknar tryggingar á þeim óvissutíma sem ríkti haustið 2008. Þetta er ekki eina dæmið um slíkt í tilfelli Björgólfs Thors sem horft er framhjá í skýrslu rannsóknarnefndar. Í skýrslunni eru hins vegar dæmi um að aðstandendur annarra banka hafi verið að gera öfugt.

Í öðru lagi er það ekki rétt að nýtt lán sem Actavis tók eftir að félagið hafði verið yfirtekið og greitt Landsbankanum upp í eldri skuldir árið 2007 hafi verið hærra. Það lán var lærra (Sjá nánari umfjöllun síðar.)

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingi segir ennfremur á bls. 145:

Jafnframt var Björgólfur Thor langstærsta áhættuskuldbinding Landsbankans í Lúxemborg, eins og fjallað er um í kafla 8.10, upp á rúmlega 300 milljónir evra í lok september 2008. Það svaraði til tæplega 12% af eiginfjárgrunni samstæðu bankans um mitt ár 2008. Þá voru útistandandi ábyrgðir Landsbankans vegna tveggja félaga hópsins frá mars 2008 enn til staðar í lok september 2008. Ábyrgðir vegna skuldbindinga Novator Telecom Bulgaria Ltd. námu um 40 milljónum evra og ábyrgðir vegna Novator Partners LLP um 20 milljónum evra.

RNA---Mynd-65

Mynd 65 sýnir útlán Straums-Burðaráss til Björgólfs Thors og tengdra aðila.Eins og hjá hinum bönkunum voru Samson og Actavistengd félög með stóran hluta útlána hópsins hjá Straumi-Burðarási. Jafnframt voru fasteignafélög tengd Björgólfi með lán í bankanum, svo sem AB Capital, Samson Properties og Samsons Partners – Properties 1. Þá veitti Straumur-Burðarás ábyrgðir vegna skuldbindinga bæði Björgólfs sjálfs og AB Capital ehf. Ábyrgðin vegna AB Capital var veitt í júní 2008, nam upphaflega 18,5 milljónum evra en í lok september 2008 nam hún 28 milljónum evra. Ábyrgð vegna Björgólfs var veitt í september 2008 og nam um 12 milljónum evra.

Athugasemdir við þessi atriði eru eftirfarandi:

Ekki er rétt sem segir hér í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að Straumur-Burðarás hafi veitt ábyrgðir vegna skuldbindinga Björgólfs Thors. Hið rétta er að Björgólfur Thor gekkst í sjálfsskuldarábyrgð vegna skulda sem faðir hans hafði stofnað til vegna rekstrar enska knattspyrnufélagsins West Ham United sem þá var í eigu hans. Þar með styrkti hann stöðu bankans.

Hér má sjá aftur að Björgólfur Thor er að auka áhættu sína og veita bönkum auknar tryggingar á þeim óvissutíma sem ríkti haustið 2008. Þetta er ekki eina dæmið um slíkt í tilfelli Björgólfs Thors sem horft er framhjá í skýrslu rannsóknarnefndar.  

Þá er mikilvægt að fram komi að þegar Straumur-Burðarás veitir AB Capital ehf. lánið sem hér um ræðir árið 2005 var bankinn hluthafi í félaginu. Við endurfjármögnun félagsins  gekkst Björgólfur Thor  í bakábyrgðir fyrir þessu láni. Umræddar ábyrgðir voru ekki vegna nýrra útlána. Við þennan gjörning styrktist staða bankans. 

Í yfirlýsingu sem Björgólfur Thor sendi frá sér 19. apríl 2010 vegna umfjöllunar skýrslunnar um lánamál hans segir m.a.: „Skýrsla rannsóknarnefndar tiltekur eingöngu þá fjárhæð sem hefur verið lánuð en tekur ekkert á hvaða tryggingar standa á móti þeim lánum eða hvenær lánin voru tekin. ….. Mörg af lánum Björgólfs voru tryggð með handveði í innlánum og því ekki um neina útlánaáhættu að ræða, þ.e. bankinn tryggði að hann myndi ekki verða fyrir tjóni þótt lántakandi gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar með því að hafa fullnægjandi eignir á móti sem tryggingu. Félög tengd Björgólfi voru með rúmlega 50 milljarða króna (300 milljónir evra) reiðufé í innlánum hjá Landsbankanum í Luxemborg við fall hans. Voru það fjármunir sem komu til vegna söluhagnaðar erlendra eigna og vörðuðu að engu leyti íslenskt efnahagslíf. Þá hafa eignir verið seldar og lán, sem tiltekin eru í töflunni, verið endurgreidd, sbr. Novator Finland Oy.“

Þá er rétt að geta þess búið er að semja um allar þessar skuldir og ábyrgðir. Það vekur eftirtekt að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað ítarlega um skuldir fjölmargar aðila við íslenska banka án þess að vikið sé að því hvort þeir eru borgunarmenn sinna skulda eða ekki.