Björgólfur kvartar til Ríkisendurskoðanda

20. september 2002 ritaði Björgólfur Guðmundsson Ríkisendurskoðun bréf fyrir hönd Samsonar vegna úttektar stofnunarinnar á einkavæðingarnefnd. Björgólfur sagði að Samson hópurinn hefði allt frá því að þeir sendu fyrst bréf til nefndarinnar 27.júní haldið sig við þær forsendur sem þar voru settar fram. Þeir hefðu ítrekað óskað eftir því við nefndina að fá skýr svör við spurningum um vinnureglur við sölu bankanna. Bréf og ítrekanir hefðu verið send en engin svör borist eða í það minnsta afar rýr. Björgólfur sagði að í þeim löndum sem þremenningarnir hefðu tekið þátt í einkavæðingarverkefnum hefðu yfirleitt tvær leiðir verið farnar, annars vegar hrein uppboðsleið og hins vegar matsleið þar sem fyrirfram tilgreindir þættir væru metnir til heildarniðurstöðu. Þrátt fyrir að Samson hópurinn hefði nú verið valinn virtist enn óljóst hvor leiðin farin yrði. Björgólfur sagði ljóst að ferli þessarar einkavæðingar hefði verið í meira lagi óljóst.